150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson vill ekki draga fram nákvæmlega af hverju þetta er og það geta verið margþættar ástæður. Meginatriðið er að það er verið að setja inn í bráðabirgðaákvæðið vond skilaboð. Það er verið að draga tennurnar úr fæðingar- og foreldraorlofinu, tennurnar úr því tæki og þeim lögum sem þau eru varðandi jafnréttismál. Sérfræðingar aðila vinnumarkaðarins, bæði verkalýðshreyfingarinnar en líka Samtaka atvinnulífsins, hafa tekið undir nákvæmlega þessa nálgun okkar af því að menn vita að ef það er tekið fast á jafnréttismálum ber það árangur og það er það sem þessi 20 ára saga fæðingarorlofsins hefur sýnt, við höfum náð árangri. Þó að við séum ekki búin að ná fullkomnu launajafnrétti þá hefur fæðingarorlofstækið skilað sér markvisst inn í baráttu kvenna sem jafnréttistæki, sem stuðningur við að þær standi jafnfætis þegar verið er að ráða þær til starfa, þegar þær eru ófrískar og verið er að ráða karlmenn á sama aldri, af því að allt í einu er staðan orðin jöfn, hún er orðin jafnari en hún hefur verið áður. Það er verið að þrýsta þeim út úr því að taka lengri tíma.

Ég vil þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir að hafa verið með púlsinn á nákvæmlega þessu. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórnarflokkarnir nýti nú tímann þar til að við greiðum atkvæði um þetta og dragi þessa tillögu til baka og láti tillögu hv. þingmanns gilda, sameinist um hana af því að þetta er stærra en stjórn og stjórnarandstaða. Þetta er risamál fyrir íslenskt samfélag og núna þegar við erum tíunda eða ellefta árið í röð fremst í flokki í jafnréttismálum þá er það einmitt út af því að við höfum staðið vaktina. Við stöndum ekki vaktina ef við bendum ekki á hið augljósa varðandi tillögur velferðarnefndar.