150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég sakna þess að ábyrgðaraðilar þessarar ágætu tillögu skuli hvergi vera sjáanlegir í þingsal þegar hún er rædd. Meiri hluti velferðarnefndar er hér að biðja Alþingi um að skipta um skoðun frá mjög skýrri afstöðu þingsins eins og hún var samþykkt í gær. Í gær samþykktum við samhljóða aðgerðaáætlun í jafnréttismálum um að lengja skyldi fæðingarorlofið í 12 mánuði og að skiptingin skyldi vera fimm, fimm, tveir. Svo kemur meiri hluti velferðarnefndar með breytingartillögu og segir: Verði ekki annað ákveðið skal þessi skipting vera fjórir, fjórir, fjórir. Það er það sem málið snýst um. Ef þessi breytingartillaga nær fram að ganga verður fæðingarorlof árið 2021 fjórir, fjórir, fjórir, sem gengur þvert á allar áherslur í umræðu um fæðingarorlof í jafnréttisumræðunni á undanförnum árum, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom ágætlega inn á.

Ég kemst eiginlega ekki hjá þeirri hugsun að meiri hluti velferðarnefndar sé að biðja Alþingi um að gera sjálft sig að athlægi í þessu máli. Meiri hluti velferðarnefndar er í krafti meirihlutasamstarfs ríkisstjórnarflokkanna að biðja þingið um að gera sig að fífli í jafnréttisumræðunni, að skipta um skoðun í svona grundvallaratriði yfir nótt án nokkurs rökstuðnings af þeirri einu ástæðu, að því er virðist, að meiri hluti velferðarnefndar hefur ekki raunverulega getað komið sér saman um þetta mál. Samt greiddi 61 þingmaður atkvæði með fimm, fimm, tveir í gær. Í ljósi þess að ekki má ganga gegn meirihlutasamstarfi með neinum hætti ætla ég að spá því að meiri hluti þingsins muni gera sig að fífli hér í dag með því að breyta þessari ákvörðun. Það sem var svo gott við samþykkt aðgerðaáætlunarinnar í gær, en verður þá jafn slæmt verði þessi breytingartillaga samþykkt, er að fram kom skýr vilji löggjafans um að skiptingin skyldi vera fimm, fimm, tveir. Meiri hluti velferðarnefndar er núna að biðja þingið um að skipta um skoðun og koma með þau skýru skilaboð inn í þessa endurskoðunarvinnu að verði ekki annað ákveðið skuli skiptingin vera fjórir, fjórir, fjórir. Þetta er grundvallaratriði og það er svo magnað í þessum sal hvað við stöndum oft illa með grundvallaratriðum í málefnum.

Í dag er skipting fæðingarorlofsins þrír, þrír, þrír. Niðurstaðan hefur verið sú að feður nýta sér ekki sameiginlega réttinn nema að óverulegu leyti. Það eru ríkar ástæður fyrir því. Á vinnumarkaði heyrast alveg raddir um að við séum enn að glíma við menningarmun með einhverjum hætti, kúltúrbjögun mætti orða það. Það er þrýstingur á feður á vinnumarkaði að nýta sér ekki sameiginlega réttinn. Það er litið hornauga og menn fá þau skilaboð frá allt of mörgum vinnuveitendum, því miður, að ekki sé æskilegt að karlarnir nýti sér sameiginlega réttinn.

Að sama skapi verða mæður fyrir sömu fordómum. Maður heyrir allt of oft þá umræðu að mæður séu litnar hornauga fyrir að nýta sér ekki sameiginlega réttinn, eins og það sé einhvern veginn merki um slæma móður að gera það ekki. Við getum alveg gefið okkur að menningarlegi þrýstingurinn verði áfram sá sami, að feður nýti ekki sameiginlega réttinn og að mæður nýti hann að fullu. Það þýðir að gangi þessi breyting eftir munu mæður að jafnaði taka átta mánuði og feður fjóra.

Ofan á það kemur sá viðbótarþrýstingur að við erum enn með kynbundinn launamun á vinnumarkaði. Karlar eru að jafnaði með 15% hærri tekjur en konur, að lágmarki myndi ég segja. Við vitum líka alveg hvernig þetta er til komið. Það er ekki svo að karlar og konur séu ráðin inn á gjörólíkum kjörum þegar þau hefja störf á vinnumarkaði. Það dregur í sundur með þeim á þessum fyrstu árum, m.a. út af ójafnvægi í kringum barneignir, að mæður eru að jafnaði lengur frá störfum en feður. Þess vegna er þetta grundvallaratriði og það er þinginu til algjörrar háðungar ef nú á að biðja það að skipta um skoðun á þeirri skýru stefnu sem kom frá því í gær með samþykkt aðgerðaáætlunar í jafnréttismálum, að þessi skipting skyldi vera fimm, fimm, tveir. Það voru skýr skilaboð til ráðherra um nánari útfærslu á þessu máli. Núna sendir þingið þau skýru skilaboð, verði þessi breytingartillaga samþykkt, að við höfum hugsað okkur um yfir nótt og að það sé betra að skiptingin verði fjórir, fjórir, fjórir.

Hv. framsögumaður þessarar breytingartillögu, Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður, sagði að meiningar um þetta mál hefðu verið deildar í umfjöllun nefndarinnar. Tíu umsagnir liggja fyrir um málið hjá velferðarnefnd. Í einni þeirra er minnst einhverjum orðum á að skiptingin fimm, fimm, tveir kunni að vera óheppileg. Í hinum níu er tekið undir þá skiptingu að fullu. Aðilar vinnumarkaðarins hafa tekið undir hana að fullu og Kvenréttindafélagið sömuleiðis. Það væri athyglisvert ef nefndir skiptu um skoðun í fleiri málum út af einni umsögn eins og virðist ætla að verða tilfellið hér.

Ekki verður annað séð en að það sé krafa Sjálfstæðisflokksins í þessu máli að horfið verði frá fimm, fimm, tveir. Við skulum tala um hlutina eins og þeir eru. Það er krafa Sjálfstæðisflokksins í málinu að horfið verði frá fimm, fimm, tveir. Úr því að síðan á að fela ráðherra að vinna úr því spyr ég Verður það ekki áframhaldandi krafa Sjálfstæðisflokksins innan ríkisstjórnarsamstarfsins að horfið verði frá fimm, fimm, tveir? Eigum við að treysta því að tillagan komi svo bara óbreytt til baka? Frumvarpið sjálft sem hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram var ágætt með fimm, fimm, tveir skiptingu og skýrum áföngum á leið í fimm, fimm, tveir. Einhverra hluta vegna vill meiri hluti velferðarnefndar rífa inn í og segja að það sé ómögulegt, það verði að skoða þetta betur og að ráðherra verði að koma með aðra tillögu fyrir næsta haust.

Til hvers er leikritið gert ef það er eingöngu til þess að ráðherra komi svo aftur næsta haust með sömu tillögu um fimm, fimm, tveir? Af hverju getum við þá ekki lokið þeirri umræðu hér og nú? Við samþykktum í gær samhljóða að það væri leiðin sem við ætluðum að fara.

Þetta er eiginlega alveg ótrúlegt mál. Í allri umræðu um fæðingarorlof í gegnum tíðina hefur það verið grunnstefið að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þetta er ekki einhver leikur með mánuði, það er algjör grundvallarmunur á því hvort réttur hvors foreldris um sig er fimm mánuðir og tveir til skiptanna eða hvort réttur hvors foreldris um sig er fjórir mánuðir og fjórir til skiptanna. Þetta er grundvallaratriði. Þetta væri okkur til háðungar í jafnréttisumræðu á alþjóðavettvangi. Öll hin Norðurlöndin vinna á sömu forsendum og við höfum verið að vinna á hingað til, að hafa sem minnst til skiptanna og hafa réttinn sem jafnastan. Það getur vel verið að í þessari umræðu séu uppi álitaefni um rétt einstæðra foreldra í afmörkuðum tilvikum. Það er þá sjálfsagt að ráðherrar setjist yfir það og velti upp hvort það séu einhverjir möguleikar í því án þess að gengið sé á réttindi foreldra til samvista við börn sín, að koma til móts við einstæð foreldri þar sem réttur annars er og liggur ónýttur. Það getur verið ágætisúrvinnsluefni fyrir samráðsnefnd ráðherra að reyna að finna einhverjar lausnir. Vissulega er vandrataður sá stígur sem ekki brýtur gegn rétti foreldra til samvista við börn sín sem hefur ekki minna vægi í þessari skiptingu.

Ég trúi ekki að stjórnarmeirihlutinn ætli í alvörunni að biðja Alþingi að gera jafn lítið úr sér og raunin yrði ef meiri hluti þingsins yrði látinn skipta um skoðun yfir nótt. Samþykktin í gær var fagnaðarefni, skýr skilaboð frá þinginu, samþykkt samhljóða, en þingið ætlar síðan að skipta um skoðun í dag. Ég vona að þessi breytingartillaga verði einfaldlega dregin til baka.