150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:26]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum mjög mikilvægt mál sem einnig er mjög skemmtilegt pólitískt umræðuefni, fæðingarorlofið. Ég ætla ekki að fara í mikla pólitíska umræðu um það þar sem ég bíð spenntur eftir að nefnd um heildarendurskoðun á fæðingarorlofslöggjöfinni komi fram til að taka alla þá umræðu. Það er svo margt sem við leysum ekki í þessu máli af því að það er eingöngu um lengingu fæðingarorlofs. Þess vegna er þetta mjög gott mál en það er mjög einangrað. Málið er til þess að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í tíu. Það er það sem við erum að gera með þessu máli og því ber að fagna. Það er gríðarlega mikilvægt að lengja fæðingarorlofið, lengja þann tíma sem börn fá til að njóta samvista við foreldra sína.

Í lífskjarasamningnum var kveðið á um að orlofið færi upp í 12 mánuði. Upphaflega ætlaði hæstv. ráðherra að bíða með að innleiða skiptingu mánaðanna þangað til heildarendurskoðunin væri komin. Þá átti líka eftir að fjalla um hvernig yrði tekist á við einstæða foreldra eða þegar annars foreldris nýtur ekki við og annað slíkt. Þar þarf jafnframt að ræða margt annað. Það átti að koma þegar með heildarendurskoðuninni. Svo var krafa um að 12 mánuðirnir kæmu strax inn svo það yrði algjörlega öruggt að það gerðist ef eitthvað kæmi upp á. Þess vegna er þetta mál svona búið núna. Ég hef ekki heyrt annað en að minni hlutinn í þinginu kalli stanslaust eftir góðum vinnubrögðum og faglegri vinnu. Þá skulum við líka gera það, við skulum hleypa þessari faglegu vinnu að svo hagaðilarnir fái tíma til að undirbúa það og koma svo með heildarendurskoðunina í október nk. Þá getum við farið að ræða hvernig við skiptum 12 mánuðunum best þannig að hagsmunir barnsins, jafnréttismálin og hagsmunir fjölskyldunnar séu sem best tryggð.

Það sem við erum að tala um hér núna og það sem þessi umræða á að snúast um er að við tryggjum að fæðingarorlofið lengist á næsta ári í tíu mánuði og árið 2021 í 12 mánuði. Við erum að fjölga mánuðunum úr þrem í fjóra sem eru eyrnamerktir hvoru foreldri fyrir sig og við verðum að gefa nefndinni svigrúm til að finna út bestu niðurstöðuna. Á því eru margar skoðanir. Ég ætla ekki að ræða þær allar hér en mér finnst alltaf gaman að ræða fæðingarorlofið vegna þess að í því eru svo mörg sjónarmið sem er hægt að velta upp. Tvö þeirra hafa verið rædd helst í dag og þau eru í þessu frumvarpi sem er eðlilegt þar sem þetta er samkomulag á milli aðila á vinnumarkaði og fæðingarorlofið er vinnumarkaðsmál. Málið snýst um hagsmuni vinnumarkaðarins og jafnréttismálin, hvort tveggja mikilvæg mál, en það snýst líka um hvað barninu sé fyrir bestu. Við höfum samið mörg lög og margar þingsályktunartillögur um það hér að við viljum gera allt sem er barninu fyrir bestu. Svo er sjálfsákvörðunarréttur fjölskyldunnar, sjálfsákvörðunarréttur kvenna og karla og hvað fjölskyldunni er fyrir bestu. Það er nokkuð sem við þurfum að taka inn í þetta líka. Margt annað skiptir líka máli. Það kom alveg skýrt fram í nefndinni að umsagnaraðilarnir fögnuðu helst því sem þetta mál snýst um, að lengja fæðingarorlofið. Það er grunnurinn í þessu máli og kemur fram í öllum umsögnum.

Nokkrir umsagnaraðilar kusu að tjá sig ekki um skiptinguna, töluðu bara um það sem barninu væri fyrir bestu og vísuðu ítrekað í heildarendurskoðunina. Það mál sem við ræðum hér og breytingartillagan gerir ráð fyrir því að við fjölgum úr þrem í fjóra og svo kemur bara í ljós að hvaða niðurstöðu nefndin kemst. Allt tal um eitthvað annað er til þess eins að afvegaleiða umræðuna í þessu góða máli, að við erum að tryggja 12 mánaða fæðingarorlof. Við hljótum öll að vera sammála um að réttur barnsins sé sá að fá að njóta þessara 12 mánuði með foreldrum sínum. Um það snýst þetta og ég vona að umræðan geti verið um það og að við leyfum heildarendurskoðuninni að fara fram. Svo skulum við taka hina pólitísku umræðu um hvaða leið okkur finnist best til að ná þeirri niðurstöðu.