150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ræðu. Ég hef þó nokkuð margar spurningar handa hv. þingmanni en látum nokkrar duga. Er Sjálfstæðisflokkurinn andvígur fimm, fimm, tveir skiptingunni sem við greiddum atkvæði með í gær? Það hlýtur að vera fyrsta spurningin, eðlileg spurning, af því að það var skýr vilji Alþingis í gær þegar við samþykktum aðgerðaáætlun í jafnréttismálum að fæðingarorlof skyldi lengja í 12 mánuði og að skiptingin skyldi vera fimm, fimm, tveir. Var hv. þingmaður ekki sammála sjálfum sér þegar hann greiddi atkvæði með þeirri tillögu í gær? Hann er hér að mæla með því að við skiptum um skoðun sem þing og færum þau skilaboð að þetta skuli vera fjórir, fjórir, fjórir nema annað verði ákveðið. Í þriðja lagi spyr ég: Er hv. þingmaður ekki bara sammála þeirri ágætu breytingartillögu sem liggur hér fyrir frá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni, að verði ekki annað ákveðið séum við einfaldlega búin að taka ákvörðun um tíu mánaða fæðingarorlof, fjórir, fjórir, tveir, og að ráðherra komi svo með sínar tillögur um 12 mánuðina síðar þannig að Alþingi sé ekki búið að lögfesta að óbreyttu fjórir, fjórir, fjórir?

Ég þekki alveg umræðuna og kröfurnar frá aðilum vinnumarkaðar um að 12 mánuðirnir yrðu lögfestir nú af því að aðilar vinnumarkaðarins treystu ekki þessari ríkisstjórn til að standa við það fyrirheit öðruvísi en að það yrði lögfest hér og nú.

Ég þykist líka vita annað sem kallar þá á fjórðu spurningu mína til hv. þingmanns: Var þessi útfærsla borin undir aðila vinnumarkaðarins? Er það krafa aðila vinnumarkaðarins að 12 mánuðirnir séu lögfestir, jafnvel þó að það feli í sér að þingið taki U-beygju frá þeirri umræðu sem hingað til hefur verið (Forseti hringir.) um lengingu fæðingarorlofs og skiptingu þess?