150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki sagt annað en að svar hv. þingmanns veldur mér miklum vonbrigðum. Umræðan um hvað barninu sé fyrir bestu sem kemur alltaf upp er auðvitað eðlileg. Það eru grundvallarréttindi barns að hafa samneyti við foreldra sína. Hingað til höfum við þó nálgast umræðuna um fæðingarorlof út frá mjög skýru jafnréttissjónarmiði þar sem við tryggjum barninu 12 mánaða samneyti við foreldra sína á þessum mikilvægu fyrstu mánuðum, klárlega með því að lengja fæðingarorlofið, en gætum þess um leið að það verði ekki til að auka á ójafnrétti á vinnumarkaði. Þess vegna hefur frá upphafi verið talað um mikilvægi fimm, fimm, tveir skiptingarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn virðist bara ósammála þeirri nálgun. Það má Sjálfstæðisflokkurinn alveg eiga við sig en það gengur gegn hornsteinum jafnréttisumræðunnar á vinnumarkaði og tengslum jafnréttisumræðu á vinnumarkaði við fæðingarorlof. Það er ástæða fyrir því að fjölmargar skýrslur hafa verið skrifaðar um þetta og alltaf fengist sama niðurstaðan. Kjósi þessi ríkisstjórn að stofna enn einn starfshópinn verður hún auðvitað að ráða því, kannski er helsta afrek þessarar ríkisstjórnar hingað til hversu marga starfshópa og margar nefndir hún hefur stofnað um mál sem hafa verið rædd í botn fyrir lifandis löngu.

Ég ætla að biðja hv. þingmann að svara mér eftirfarandi: Var hann þá ósammála sjálfum sér þegar hann samþykkti fimm, fimm, tveir í gær? Finnst honum það til þess fallið að upphefja virðingu Alþingis að krefjast þess að Alþingi skipti um skoðun yfir nótt á grundvallarnálgun þessa máls, að við hverfum frá ákvörðunum sem við tókum í gær um að orlofið skyldi vera fimm, fimm, tveir yfir í ákvörðun um að að óbreyttu skuli það vera fjórir, fjórir, fjórir?