150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:38]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt ítrekað hér að það fari eftir því í hvaða samhengi við ræðum þetta mál hvaða áherslur við setjum í fyrsta sæti. Þegar við notum fæðingarorlofið sem jafnréttistæki — það er mjög sterkt og gott jafnréttistæki, ég tek undir það og við höfum gert það — er eðlilegt að stefnan sé fimm, fimm, tveir, eins og birtist í jafnréttisáætluninni. Við þurfum líka að skoða þetta frá fleiri áætlunum sem eru samþykktar á Alþingi og þar má ekki vera ósamræmi.

Þetta mál hefur allan tímann verið unnið þannig að fram eigi að fara fagleg vinna. Ég vil bara fá að sjá niðurstöðu hennar þannig að við getum gert sem best. Við megum ekki ræða þetta eins og ekki séu fleiri tæki sem við höfum í jafnréttisbaráttunni og eins og við höfum ekki náð neinum árangri hingað til. Við höfum náð hellingsárangri sem betur fer. Eins og kerfið er núna veit vinnuveitandinn ekki fyrir fram hvort faðirinn eða móðirin taki sex mánuðina eða hvort þeim verði dreift eins og hægt er að gera í kerfinu sem við búum við í dag. Ég held að við höfum mjög gott kerfi sem við eigum að halda áfram að þróa með bestu upplýsingum, samkvæmt því sem er barninu fyrir bestu, þannig að það hjálpi okkur í jafnréttismálum, hjálpi okkur að gera vinnumarkaðinn öflugri og velferðarsamfélagið öflugra.

Það sem við ræðum hér í dag er að við erum að lengja orlofið í 12 mánuði sem er mikið baráttumál, er í stjórnarsáttmálanum og því ber að fagna. Við skulum treysta því að ráðherrann komi með þetta mál inn í október og þá getum við tekið hina endanlegu umræðu um málið. Ef eitthvað kemur upp á, eins og hefur oft gerst á vinnustað, er mjög mikilvægt að vera búin að tryggja 12 mánuðina og að eitthvert kerfi taki við.