150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að deila því með hv. þingmanni að forðum daga þegar ég átti sæti í þingflokki stjórnarflokks tók ég þátt í að afgreiða þetta frumvarp í gegnum þann þingflokk og ég gerði engan fyrirvara við málið af því að mér leist vel á það og treysti mér til að fylgja því til enda innan þingsins. Frumvarpið sem ráðherra lagði fram finnst mér giska gott, það snýst um að lengja fæðingarorlofið upp í 12 mánuði og gera það með ákveðnum hætti sem ég er sammála en þingmaðurinn ósammála. Eins og fram hefur komið er það umræða sem þarf að eiga sér stað í þessum sal.

Mér þykir smásvekkelsi að meiri hluti velferðarnefndar treysti sér ekki til að útfæra nema fyrsta skrefið, lengingu úr níu í tíu mánuði, en gerir það þó ágætlega með því að leggja til fjóra, fjóra og tvo mánuði.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um að hin pólitíska umræða um endanlega skiptingu ætti að eiga sér stað hér þegar fagleg vinna þeirrar nefndar sem fer með heildarendurskoðunina er búin að eiga sér stað, þegar í ljós er komið að hvaða niðurstöðu sú nefnd kemst, og þá eigum við að ræða í þingsal hvað okkur finnst um hina endanlegu skiptingu mánaðanna 12, en ég fæ það ekki alveg til að ganga saman við þá tillögu sem þingmaðurinn stendur að sem einmitt festir í sessi, þó aðeins með einhverju bráðabirgðaákvæði, fjórir, fjórir, fjórir skiptinguna á 12 mánuðunum. Allt annað sem þingmaðurinn sagði mælti með samþykkt breytingartillögu minnar. Mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn sé ekki bara í raun sammála því að breytingartillaga mín nái fram að ganga og að ráðherra verði einfaldlega falið að koma með frumvarp um útfærslu mánaðanna 12 (Forseti hringir.) án þess að þingið sé að setja honum einhvern ramma hér og nú.