150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki af hverju meiri hluti velferðarnefndar er með svona miklar áhyggjur af því að eitthvað komi upp á í ráðuneyti félags- og barnamálaráðherra svo hann geti ekki skilað frumvarpinu. Ég veit ekki hvað ætti að koma upp á, en hann vill vera með varnagla í bráðabirgðaákvæði til að tryggja að ef ráðherrann kemur ekki með frumvarp sem hann er margbúinn að segja að hann muni koma með gildi tiltekin og ákveðin skipting á 12 mánaða fæðingarorlofi sem er útfærð án hinnar pólitísku umræðu sem þingmaðurinn leggur til að þurfi til að taka þessa ákvörðun, án þeirrar faglegu vinnu sem mun eiga sér stað í nefnd um heildarendurskoðun fæðingarorlofskerfisins, án alls þess sem ég heyri ekki betur en að þingmaðurinn sjálfur kalli eftir. Þá er eitthvað að koma upp á. Þá erum við að taka ákvörðun án pólitískrar umræðu og án faglegs grundvallar. Ég hef meiri áhyggjur af því en að félags- og barnamálaráðherra falli á tíma með frumvarpið, komi of seint með það, og að við neyðumst til að samþykkja með einhverju sjálfvirku kerfi lengingu fæðingarorlofs.

Ég ítreka spurninguna: Er ekki fínt að samþykkja breytingartillögu mína og taka hina pólitísku umræðu um útfærslu 12 mánaða fæðingarorlofs, ekki út frá breytingartillögu sem var lögð fram hér seint í gær heldur á grundvelli faglegra sjónarmiða og pólitískrar umræðu í þessum sal í haust?