150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[12:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vissulega vilja allir í nefndinni eftir því sem ég best fæ séð kappkosta góð vinnubrögð og bæta verklagið til framtíðar en við erum enn að afgreiða fjáraukalög. Við höfum verið að því að undanförnu og ég sé ekki að þau framtíðarvinnubrögð sem lofað er hafi verið notuð við núverandi framkvæmd afgreiðslu fjáraukalaga.

Mig langar til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar um þrjú álit sem liggja fyrir nefndinni, álit Ríkisendurskoðunar á því hvort viðbótin í fjáraukalögum varðandi kirkjujarðasamkomulagið standist lög um opinber fjármál, minnisblað sem við fengum frá ráðuneytinu sem segir að kirkjujarðasamkomulagið standist lög um opinber fjármál og í þriðja lagi álit ráðuneytisins í framsögu á nefndarfundi um hvort það standist lög um opinber fjármál eða ekki.