150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[13:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Herra forseti. Það var áhugaverður fundur um fjáraukann og hvernig hann stenst lög um opinber fjármál en ég bað um að fjáraukinn færi til nefndar á milli 2. og 3. umr. til að fá frá ráðuneytinu ítarlegar útskýringar á því hvernig hver einasta fjárheimild stæðist lög um opinber fjármál eða ekki, a.m.k. útskýringar á þeim atriðum sem komu fram í gagnrýni Ríkisendurskoðunar að virtust ekki standast lög um opinber fjármál. Þar á meðal er afgreiðsla, í rauninni geymsla, hluta af kirkjujarðasamkomulaginu til fjáraukalaga sem Ríkisendurskoðun sagði að gengi klárlega gegn lögum um opinber fjármál ef maður les á milli línanna í stofnanamálinu sem slíku. Því er áhugavert að sjá annars vegar í gagnrýni Ríkisendurskoðunar minnisblað ráðuneytis sem segir að þetta sé fullkomlega samkvæmt lögum um opinber fjármál og sjá síðan og heyra framsetningu ráðuneytisins á sama máli fyrir nefndinni þar sem það kom ekki svo skýrt fram í máli ráðuneytisins að það að geyma kirkjujarðasamkomulagið á þennan hátt væri samkvæmt lögum um opinber fjármál. Réttara sagt voru svör ráðuneytisins að þessu viðbótarfjármagni, sem vantaði upp á kirkjujarðasamkomulagið sem var geymt til hliðar til að vera í betri samningsstöðu gagnvart kirkjunni, væri stungið inn í almenna varasjóðinn til að örugglega yrðu heimildir fyrir því í lok árs. Ráðuneytið vissi hvort eð er að það kæmi til með að kosta þetta að lokum. Dágóður hluti af varasjóðnum, þetta 1% sem á að vera í varasjóði fyrir allan ríkissjóð, var tekinn til hliðar fyrir fram fyrir kirkjujarðasamkomulagið í fjáraukanum. Það rýrir afl varasjóðsins til að glíma við tilfelli sem koma upp á fjárlagaárinu til að vera varasjóður fyrir allt hitt sem er ófyrirsjáanlegt samkvæmt lögum um opinber fjármál. Þarna var tekinn til hliðar rúmlega 1 milljarður af fyrirsjáanlegu fjármagni og settur í varasjóðinn. Upp kemur í lok ársins að varasjóðurinn dugar ekki fyrir öllum þeim óhöppum sem koma upp innan ársins. Ef tekin eru þau atriði sem passa alveg undir skilyrði fyrir notkun á varasjóðum og notkun á fjáraukanum eru þau hærri en sem nemur varasjóðnum þannig að það þyrfti að koma með eitthvað í fjáraukalögum. En það þarf meira í fjáraukalögum en fyrirsjáanlegt var út af þessu bixi með kirkjujarðasamkomulagið enn og aftur.

Í það heila er gott að vera loksins laus við þetta. Það er komið nýtt, lélegt samkomulag og við höldum okkur við það. Öll hringavitleysan með fjárheimildirnar gengur einfaldlega ekki upp og það er þar sem ég gagnrýni einfaldlega vinnubrögðin. Það er ekki hægt að segja: Við ætlum að vera með góð vinnubrögð til framtíðar en við ætlum að sleppa þessu í gegn, þetta er nú síðasta árið sem er í svona rugli.

Ég get ekki tekið alveg undir þau húrrahróp að augljóslega verði vinnubrögðin betri í framtíðinni þegar ekki er hægt að standa við þau þegar tækifæri er til þess. Á þessum nótum segi ég að þó að meiri hluti tillagnanna í fjáraukalagafrumvarpinu, eins og kom fram á fundi fjárlaganefndar á milli 2. og 3. umr., sé samkvæmt lögum um opinber fjármál tókst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir að draga upp hvaða heimildir í minni hluta tillagnanna passa ekki við lög um opinber fjármál og eiga því ekki heima í fjáraukalögum. Ítrekað var spurt en aldrei svarað.