150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[13:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, það kom mjög vel og mjög skýrt fram í máli ráðuneytisins á fundinum á milli 2. og 3. umr. að meiri hluti tillagnanna passar við lög um opinber fjármál. Hins vegar eru atriði sem passa ekki við skilyrði laga um opinber fjármál og þrátt fyrir ítrekaðar spurningar fékkst aldrei fram hvaða heimildir það eru ekki. Ég get talið til 8 milljónirnar fyrir Landsrétt. Það er ekkert ófyrirsjáanlegt við þær, það er ákvörðun um ný útgjöld sem á ekki heima í fjáraukanum. Ég get alveg talið til fleiri dæmi en ég vildi ekki gera það af því að ég vildi að fjármálaráðuneytið væri að segja satt og rétt frá, að það kæmi með rökstuðninginn þannig að það væri hægt að gagnrýna hann út frá þeim forsendum, ekki mínum forsendum. Rökstuðningurinn kom hins vegar aldrei. Ráðuneytið hamraði á því að það væri allt gott og rétt en eftir tiltölulega kammó samtal á síðasta fundi kom fram í lok fundarins að meiri hlutinn væri samkvæmt lögum um opinber fjármál — en ekki allt.

Meiri hlutinn hafði engan áhuga á að vita hver þessara heimildarákvæða pössuðu ekki við lög um opinber fjármál og þar við situr eiginlega. Það sem við erum að greiða atkvæði um í þessum fjáraukalögum er að meiri hluti þingsins telur eftirlitshlutverkið ekki það sterkt að hann gagnrýni atriði í fjáraukalögum sem augljóslega er ekki hægt að rökstyðja samkvæmt skilyrðum laga um opinber fjármál.