150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

búvörulög og tollalög.

382. mál
[14:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mjög mikið og mikilvægt mál. Verið er að gera grundvallarbreytingar á regluverki sem er löngu úrelt og úr sér gengið. Það er verið að skila neytendum og framleiðendum stórum hluta af verðmæti þeirra tollkvóta sem hingað til hafa verið boðnir upp.

Ég hef heyrt þá umræðu að þetta sé seint fram komið. Það er rangt.

Í annan stað hef ég heyrt efasemdir um að ávinningurinn af þessum skattalækkunum skili sér ekki til neytenda. Rannsóknir, m.a. á niðurfellingu tolla og vörugjalda, sem gerðar voru árið 2015 og 2016 sýna að neytendur njóta þeirra niðurfellinga og þeirra skattalækkana sem þannig eru framkvæmdar.