150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í tengslum við þetta mál hefur mikið verið rætt um kirkjujarðasamkomulagið frá 1997. Málflutningur Pírata á Alþingi hefur verið óvæginn í garð kirkjunnar og hafa ýmis orð fallið sem eru þeim ekki til sóma. Samningurinn um kirkjujarðir er ekki til endurskoðunar í þessu nýja samkomulagi. Kirkjujarðasamkomulagið stendur sem fyrr óhaggað. Kirkjan vinnur mikilvægt starf um allt land. Athafnir á vegum hennar eru um 8.000 á ári og kirkjur rúmlega 270, sumar hverjar ómetanlegar í trúar- og menningarsögu þjóðarinnar. Með þessu nýja samkomulagi er stigið mjög stórt skref í átt að sjálfstæði kirkjunnar. Hér er um tímamót að ræða í samskiptum ríkis og kirkju. Kirkjan nýtur sem fyrr verndar ríkisins í stjórnarskrá en fjarlægist það mjög að vera ríkisstofnun með þessum samningi. Vonandi kemur kirkjan til með að nýta frelsið sem í þessu nýja samkomulagi felst þjóðinni til blessunar.

Miðflokkurinn fagnar þessu samkomulagi.