150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[14:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hv. 3. þm. Suðurk. nefndi áðan að orðræða Pírata hefði verið óvægin í garð kirkjunnar. Þetta er rangt. Hún hefur verið óvægin í garð kirkjujarðasamkomulagsins. Kirkjujarðasamkomulagið er ekki kirkjan og kirkjujarðasamkomulagið er ekki heilagt — né kirkjan ef út í það er farið frekar en aðrar mannlegar stofnanir. Ég leggst gegn þessu máli vegna þess að ég er á móti kirkjujarðasamkomulaginu. Ég er á móti sérstökum forréttindum gagnvart nokkrum trú- eða lífsskoðunarhópi, hvort sem hann er þjóðkirkjan eða einhver annar. Ég vil bara jafnræði fyrir lögum, mér finnst það sjálfsagt, og sömuleiðis er ég á móti því að þegar ríkið semur við svokallaðan sjálfstæðan aðila sé ríkið að sinna hagsmunum þess gagnaðila frekar en hagsmunum Íslendinga, íslensku þjóðarinnar og skattgreiðenda. Mér finnst að ríkið eigi að verja hlut skattgreiðenda í slíkum samningaviðræðum sem ríkið gerir augljóslega ekki sem sést mjög augljóslega á því að þetta kirkjujarðasamkomulag skuli vera til staðar yfir höfuð, hvað þá að það sé útfært með þessum hætti.

Ég leggst gegn málinu (Forseti hringir.) og vona að ríkið muni einhvern tímann fara að huga að hagsmunum skattgreiðenda frekar en kirkjunnar í samningum sínum.