150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Stundum er talað um pólitískan rétttrúnað. Það þarf að aðskilja hann frá venjulegum rétttrúnaði vegna þess að svo vill til að venjulegur rétttrúnaður er sögulega trúarlegt hugtak, þ.e. þegar maður á einfaldlega að trúa einhverju og ef maður trúir því ekki sé maður einhvern veginn siðferðislega mistækur, þá hafi maður gert eitthvað rangt með því að sjá ekki sama heim og einhver annar.

Þetta atkvæði hérna er ekki á móti kirkjunni sjálfri, það er ekki á móti kristinni trú og ekki á móti kristnum mönnum. Það kemur málinu ekkert við. Þetta atkvæði er á móti kirkjujarðasamkomulaginu sem er alfarið mannanna verk — og breyskra eins og vitnin segja til um. Ég vildi bara hafa þetta á hreinu vegna þess að ítrekað er okkur Pírötum sérstaklega en líka öðrum lagt það í munn að við séum einhvern veginn á móti kirkjunni eða á móti kristni eða á móti kristnum mönnum. Það er rangt, virðulegur forseti, við erum bara á móti fúski eins og þessu máli og erum á móti óeðlilegum forréttindum til handa ákveðnum hópum umfram aðra. Það væri jafnræði fyrir lögum og fyrir samning við ríkið í þessu landi. Um það snýst málið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)