150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

7. mál
[15:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að þingið samþykki þessa tillögu. Ég er ósammála því sem kom fram hérna áðan sem kannski gefur að skilja. Það að efla eftirlit með lögreglu er ekki óþarft. Það er mjög þarft og það kemur fram í gögnum þessa máls. Það kemur fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra og það kemur fram víðar. Það kemur fram í skýrslum nefndar um eftirlit með lögreglu þannig að það liggur bara fyrir. Það er þó rétt að áfram þarf að þróa málaflokkinn og ég hlakka til að sjá málin frá hæstv. dómsmálaráðherra þar sem þetta verður útfært nánar. Þá getum við hv. 5. þm. Reykv. s. eflaust og vonandi tekist á um einhver útfærsluatriði þar.

Ég vil bara aftur þakka fyrir málsmeðferð hv. allsherjar- og menntamálanefndar og vil meina að jafnvel þegar fólk er ósammála í nefndum, svona fyrri part af málsmeðferðinni, sé oftar en maður heldur möguleiki á því að ná saman á endanum.