Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:32]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Er ekki örugglega öllum ljóst nú hvað það þýðir þegar talað er um að byggja þurfi upp innviði landsins alls? Enn er verið að vinna að viðgerðum á raflínum eftir ofsaveðrið og það er vitað að óveðrið olli miklu tjóni þó að enn hafi ekki allt verið metið. Það þarf að þakka æðruleysi og dugnað allra starfsmanna sem stóðu vaktina, bæði innan og ekki síst utan húss, og sömuleiðis íbúanna sem búa á þeim svæðum sem verst urðu úti.

Mín spurning er einföld: Hvernig mun hæstv. ráðherra sjá til þess að RÚV bregðist ekki öryggis- og almannahlutverki sínu enn ganginn enn? Það skal sagt: Öryggi íbúa var ógnað. Víða hefði getað farið illa ef ekki hefði verið fyrir elju og óeigingirni björgunarsveitaraðila og annarra sjálfboðaliða. Það liggur fyrir að ríkisvaldið þarf með einhverjum raunverulegum hætti að styrkja björgunarsveitirnar í landinu. Öryggi um allt land þarf að vera forgangsmál alltaf.