150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur andsvarið. Hún nefndi hér tvennt, í fyrsta lagi dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Nú er það svo að í lögum um Ríkisútvarpið er sérstaklega fjallað um almannavarnahlutverk þess. Það liggur sömuleiðis fyrir að útsendingar þess náðust ekki t.d. í Húnavatnssýslu þegar óveðrið gekk yfir. Hæstv. menntamálaráðherra kom með minnisblað inn í ríkisstjórn í morgun þar sem farið er yfir hvenær þetta dreifikerfi datt út og hvar nákvæmlega og það liggur fyrir að hæstv. ráðherra mun fara yfir þetta mál og það verður líka tekið til skoðunar í átakshópnum sem ég vísaði til áðan.

Ég get verið sammála hv. þingmanni um það að við þurfum að sjálfsögðu að tryggja upplýsingagjöf og miðlun til íbúa alls landsins. Þar gerum við ríkar kröfur til Ríkisútvarpsins. Við vitum það líka að vegna tæknibreytinga og breyttrar samfélagsgerðar erum við til að mynda með breytta tíma þegar kemur að viðtækjum sem geta tekið við langbylgjusendingum. Þetta kallar á það að Ríkisútvarpið geri áætlanir en við þurfum að horfa á þetta í stóra samhengi almannavarnakerfisins og hvort nýjar lausnir þurfi að skoða vegna þessara tæknibreytinga.

Hvað varðar björgunarsveitirnar sem hv. þingmaður nefndi þá er það svo að björgunarsveitirnar eru einstakar. Annars vegar njóta þær fjárframlaga ríkisins en fyrst og fremst afla þær fjár sjálfar með ýmsum hætti. Á því hafa þær byggst upp. Þær eru ekki ríkisstofnun og ég held að það sé í raun gríðarlega eftirsóknarvert að halda því fyrirkomulagi. En að sjálfsögðu þurfum við að horfa til framtíðarfyrirkomulags fjármögnunar björgunarsveitanna, ekki síst þegar við skoðum hvaða fjármögnunarleiðir hafa verið nýttar þar, hvað varðar flugeldasölu o.fl. Við þurfum að hafa framtíðarsýn um það hvernig eigi að standa að því ásamt því að varðveita þetta fyrirkomulag sem hefur reynst okkur svo dýrmætt á Íslandi.