Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svona atburðir hreyfa við okkur sem þjóð og það var gott að finna þá samkennd sem landsmenn sýndu því fólki sem lenti í verstu aðstæðunum. Samkennd og samhjálp eru einmitt þau viðbrögð sem eiga við við slíkar aðstæður. Málið er ekki allt einfalt en það er augljós leið til að drepa málunum á dreif að tefla hópum upp á móti hver öðrum þegar bent er á veikleika í innviðum. Höfuðborgarbúar eiga eðlilega stundum erfitt með að gera sér í hugarlund hvernig aðstæður eru úti á landi, alveg eins og Suðurnesjamenn skilja ekki alltaf við hvað fólk glímir á Raufarhöfn og fólk á Raufarhöfn ekki alltaf hvernig fátækt fólk úti í heimi tekst á við tilveruna. Veruleikinn sem blasir við ólíkum hópum er margvíslegur en fram undan bíður sameiginlegt verkefni okkar allra og það er eingöngu með samstilltu átaki sem okkur mun miða áfram.

Atburðir síðustu daga varpa skýru ljósi á ójöfnuð í landinu. Þeir varpa ljósi á byggðaójöfnuð. Samþjöppun íbúa á Íslandi er óvenju mikil. Fámenn þjóð í stóru landi byggir upp stærstu og mikilvægustu stofnanirnar á einum stað. En þótt það hafi verið nauðsynlegt verðum við að tryggja að innviðir, hvort sem er raforka, fjarskipti, menntakerfi, samgöngur eða heilbrigðisþjónusta, séu með þeim hætti að litlu skipti hvar fólk býr á landinu.

Getur hæstv. forsætisráðherra ekki tekið undir það með okkur í Samfylkingunni að viðbrögð og innviðauppbygging sem fram undan er eiga að miðast að því að jafna búsetuskilyrði? Ef svarið er já, hvernig hyggst hæstv. ráðherra vinna að því verki? Hvar munu helstu áherslur liggja að loknum fyrstu nauðsynlegum viðbrögðum?