150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Það er mjög mikilvægt sem hún sagði því að það kunna að stundum að vera fyrstu viðbrögð að tefla einmitt ólíkum hópum hver gegn öðrum þegar brugðist er við erfiðum aðstæðum. Við erum ein þjóð í einu landi, við erum ekki nema 350.000 og það eru verðmæti, þannig að ég get tekið undir með hv. þingmanni að ef við viljum halda í þau verðmæti, halda áfram að vera hér ein þjóð, þá skiptir að sjálfsögðu máli að jafna búsetuskilyrði og greina þá veikleika sem við sáum birtast okkur í þessu veðri.

Þar skiptir máli að horfa til rafmagnsfjarskipta en hv. þingmaður nefndi líka aðra þætti sem skipta máli til að jafna búsetuskilyrði. Þar hefur auðvitað mikið verið unnið á undanförnum árum, vissulega, í uppbyggingu innviða, en um leið sjáum við að mjög mikilvægir innviðir bregðast í þessu hamfaraveðri. Hvað gerist næst, spyr hv. þingmaður. Átakshópurinn fær ekki langan tíma til að vinna. Þar koma saman fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, samgöngu-, sveitarstjórnar- og byggðamálaráðuneytis, atvinnuvegaráðuneytis sem fer með orkumál og skyndilega er því algerlega stolið úr mér hvað fimmta ráðuneytið er. En það kemur hér á eftir, þegar ég er búin að líta í gögnin mín. Þarna koma saman fimm ráðuneyti sem munu sameinast um að kortleggja í raun og veru hvernig við getum annars vegar forgangsraðað — og við vitum að þetta mun kosta fjármuni, við vitum það alveg — en þetta snýst líka um skipulagningu. Það tengist því sem hv. þingmaður nefnir hér um ólík skilyrði byggðanna, það snýst um hvernig við skipuleggjum starfsemi til að mynda opinberra stofnana sem þjónusta fólk um land allt.