150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra þessa skýrslu. Ég vil fyrst segja að það er eitthvað svo fallegt og gaman að sjá hvernig við komum saman í svona kringumstæðum og viðbrögð björgunarsveita, aðila úti um allt land, voru til stakrar fyrirmyndar. Ég ætla ekki að fara að leggjast í umræðu um það hvað þar hefði mögulega mátt fara betur eða vera betur undirbúið. Ég held að miðað við aðstæður hafi viðbrögð aðila verið til stakrar fyrirmyndar og okkur ber auðvitað öllum að þakka fyrir ótrúlega ósérhlífni allra sem að komu.

Hér gerir vont veður, við vitum það. Hér voru vissulega óvenju slæmar aðstæður en nú hefur umræða varðandi ástand raforkudreifikerfis okkar verið allmikil á undanförnum 10–15 árum, hið minnsta, um mikilvægi uppbyggingar og endurnýjunar á byggðalínu og nauðsynlegum dreifikerfum út frá byggðalínunni, og ég velti fyrir mér: Hvar liggur vandinn? Við settum ný raforkulög 2003 þar sem skyldur bæði flutningsfyrirtækis og dreififyrirtækja voru settar alveg skýrt fram og fyrirtækjunum voru sett tekjumörk sem áttu að tryggja fjármögnun á nauðsynlegri uppbyggingu í kerfinu. Nú hefur ítrekað komið fram á undanförnum árum ákall um endurnýjun, m.a. á byggðalínunni. Ég minni á skýrslu frá Landsneti frá síðasta ári þar sem kom fram að á árinu 2018 voru 80% af orkuskerðingum í flutningskerfi Landsnets vegna veikrar byggðalínu, um 20% bilunartíðni það ár voru vegna veikrar byggðalínu og þetta mátti reyndar rekja mörg ár aftur í tímann. Er þetta flækja í leyfisveitingaferlinu hjá okkur? (Forseti hringir.) Er þetta skortur á pólitískri forystu? (Forseti hringir.) Hvar liggur vandinn í því að okkur tekst ekki að takast á við nauðsynlega uppbyggingu þrátt fyrir stöðuga umræðu undanfarin 10–15 ár?