150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég fá að taka undir með hv. þingmanni, og raunar öðrum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað, ég held að við getum í raun verið mjög þakklát fyrir þá samstöðu sem við höfum skynjað í samfélagi okkar á undanförnum árum og, eins og ég sagði áðan í ræðu, fyrir þann mikla samfélagslega kraft sem við eigum í okkar fólki sem bregst við þegar svona áföll dynja yfir og leggur á sig ómælda vinnu við að styðja og aðstoða fólk í neyð. Þar getum við rætt um björgunarsveitirnar sem hér eru á pöllunum og vita að þær eru ein mestu verðmæti sem við eigum en við skulum líka halda til haga öllum þeim starfsmönnum sem vinna hjá þeim stofnunum sem þurftu að bregðast við í þessu veðri.

Hv. þingmaður ræðir sérstaklega dreifikerfið og ég veit að hæstv. ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra mun fjalla sérstaklega um það í ræðu sinni á eftir. En auðvitað var sú ákvörðun tekin fyrir 25 árum af Rarik að leggja skyldi kerfið í jörð og við erum stödd í því verkefni, 2/3 af kerfinu eru komnir í jörð. Það er því enn þá verulega mikið eftir. Hvað veldur? spyr hv. þm. Þorsteinn Víglundsson. Ég gæti trúað að það séu ýmsir samverkandi þættir og það er hlutverk átakshópsins sem skipaður var að greina hvort það séu hindranir. Hér hefur verið rætt um regluverk. Við þurfum að sjálfsögðu að gæta jafnvægis í öllu okkar laga- og regluverki og það er mikilvægt að við fórnum því ekki þó að við þurfum að bregðast við. Við þurfum að skoða fjármögnunina og við þurfum líka að greina hvort við séum að forgangsraða með réttum hætti innan þess sem við erum að gera, því að það er ljóst að þetta hefur tekið langan tíma þó að stefnan hafi tvímælalaust verið tekin á sínum tíma, fyrir 25 árum.