Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni. Nei, við erum auðvitað ekki með allt í nefnd. Hér fór allt á fullt, ekki bara Rarik, ekki bara Landsnet. Það voru björgunarsveitir, lögreglan, slökkviliðið, sjúkraflutningar, Vegagerðin og ferðaþjónustufyrirtækin sem sáu til þess með sinni upplýsingamiðlun að ferðamenn væru ekki á ferli. Ég er vafalaust að gleyma einhverjum en við sáum að það fóru allir á fullt til að bregðast við. Það varð mannskaði sem er sá skaði sem aldrei verður bættur en við getum bætt það tjón sem varð. Við eigum, eins og ég sagði áðan, líka að nota tækifærið til að kortleggja þessa veikleika. Við sáum að sumt virkaði. Við erum auðvitað vön ýmsum hamförum á Íslandi. Hv. þingmaður fór yfir hamfarir um heim allan en hér höfum við fengið jökulhlaup, eldgos, óveður, fárviðri, margháttaðar hamfarir sem við höfum staðið í gegnum. Það munum við gera líka núna en auðvitað eigum við og verðum og okkur er skylt að fara yfir það hvernig innviðir okkar koma út úr þessu og hvað við getum gert betur.

Ég tel nokkuð ljóst að þar þurfi sérstaklega að horfa til raforkukerfisins og fjarskiptakerfisins. Hér hefur verið minnst á dreifikerfi Ríkisútvarpsins í þessu samhengi og einnig á varaafl og aðgengilegt varaafl um landið. Við getum svo sannarlega lagað þetta og það er skylda okkar að laga þetta þannig að við upplifum það ekki aftur sem gerðist í þessu veðri. Um leið höfum við sýnt með viðbrögðum okkar og allra þeirra aðila sem ég nefndi og margra fleiri líka að við getum svo sannarlega brugðist við. Það er hins vegar tækifæri líka í því, og það nefndi ég áðan, að fara yfir stöðu almannavarna sérstaklega, fara yfir hvernig við metum að þær breytingar sem gerðar voru á sínum tíma hafi reynst okkur (Forseti hringir.) og hvernig við getum tryggt að það kerfi virki sem allra best. Þessir atburðir sýna okkur virkilega að þetta er risastórt öryggismál fyrir þjóðina alla.