150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:04]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Snarpur óveðurskafli er nú að baki. Engin ósköp, annað eins hefur landinn upplifað en við vorum engu að síður dálítið berskjölduð. Þetta megum við ekki láta henda okkur, þetta var þörf lexía því við verðum að búa okkur undir það og horfast í augu við aukna veðuröfga á komandi árum. Við komum til með að sjá fleiri svona tilvik og við verðum að standa klár.

Það var slæmt veður um allt land. Óveður geisaði í mínu kjördæmi eins og víða, í Norðvesturkjördæmi, og á Norðurlandi. Þar koma strax upp í hugann aðstæður í Skagafirði og í Húnavatnssýslum, Húnaþingi þar sem fólk bjó við rafmagns- og fjarskiptaleysi dögum saman, fólk og búsmali átti í miklum erfiðleikum. Það sorglegasta var þó að þetta óveður kostaði eitt mannslíf, það tökum við öll nærri okkur.

Það er sérkennileg sú tilhugsun að við hefðum sennilega verið betur komin að mörgu leyti fyrir kannski 30 árum í svona óveðri þrátt fyrir nútímatækni og sjálfsöryggi. Lengst af hékk koparsíminn inni hér áður og fyrr og varaafl er kannski ótryggara nú en áður, við treystum á miðlæga rafvæðingu og erum jafnvel víða búin að selja frá okkur dísilrafstöðvar. Allt þetta þurfum við nú að endurskoða.

Nýafstaðið óveður hefur opinberað gríðarlega veikleika í grunninnviðum landsins. Þúsundir íbúa hafa misst rafmagnstengsl og fjarskipti verið í lamasessi í langan tíma og sumt af því er ekki komið í lag enn. Yfir 800 björgunarsveitarmenn hafa sinnt útköllum dag og nótt um allt land og hafa unnið frábært starf sem fyllir hvern Íslending stolti.

Rafmagnsleysi og slitrótt fjarskipti hafa gífurleg áhrif á öryggi og líf fólks og fyrirtækja. Raforkuöryggi þarf að vera tryggt bæði í þéttbýli og dreifbýli og það er mögulegt. Stjórnvöld eiga að hlutast til um að uppbygging raforkukerfis sé fjármögnuð og þegar það liggur fyrir, að þá sé ekki síst hindrunarlaust hægt að byggja umgjörð sem heldur. Á þessu hefur verið misbrestur. Eftir þá reynslu sem við erum enn að vinna úr vakna margar spurningar. Margur er býsna hugsi yfir landsskipulagi og þáttum sem snúa að viðhaldi innviða og uppbyggingu þeirra. Þetta á við um flutningskerfi raforku, fjarskiptin, vegi, hafnir og flugvelli svo eitthvað sé nefnt.

Við þurfum að yfirfara ýmsa þá lagaþætti og regluverk sem snúa að umhverfisvernd, skipulagi og úrskurðarmálum, gera úrvinnsluna markvissari með þjóðaröryggi, almannahagsmuni og almannavarnir bæði landsbyggðar og þéttbýlis í huga. Einhverja þætti sem varða grunninnviði þarf kannski að taka hreinlega út fyrir sviga. Þetta þarf að gera yfirvegað og af fullri alvöru. Við megum ekki láta reglugerðarflækjur verða okkur að fótakefli í þessari vinnu. Við þurfum ekkert að slá af kröfum og þeirri sýn sem við höfum gagnvart gildandi umhverfis- og skipulagsákvæðum eða verndarsjónarmiðum. Vistvænar aðgerðir og sjálfbærni eiga og þurfa að vera stöðugt leiðarljós en við höfum ekki haldið vöku okkar og breytinga er þörf. Við þurfum að taka okkur taki, skapa nýjan þjóðaröryggissáttmála eins og hæstv. forsætisráðherra kom svo vel inn á og það er ánægjulegt að vita til þess að það er skipulega unnið úr þeirri reynslu sem við höfum fengið.

Innviðir, hvort sem átt er við raforku, menntakerfi, samgöngur eða heilbrigðisþjónustu, eiga að vera með þeim hætti að sem minnstu máli skipti hvar fólk kýs að búa á okkar strjálbýla landi.