150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:08]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég held að það sjái allir að þessi aðventustormur afhjúpaði óásættanlega veikleika í innviðum okkar, bæði hvað varðar raforku og jafnvel alvarlegri hvað varðar fjarskiptakerfi okkar. Það má ekki gleyma því að á mörgum stöðum er rafmagn nýtt til húshitunar. Sögur af fólki sem hópast saman í sama herbergi með kveikt á kertum til að halda á sér hita ættu ekki að heyrast í íslenskum nútíma. En þetta er raunveruleikinn, ekki uppspuni, ekki ýkjur. Við höfum heyrt mikið um hvaða áhrif veðrið hefur haft á fyrirtæki og stofnanir. En hvað með íbúana? Því miður hefur þeirra rödd lítið heyrst, e.t.v. út af því að þeir voru margir hverjir síma- og netsambandslausir. Okkur stjórnmálamönnum ber að grípa inn í þær aðstæður sem komið hafa upp og tryggja fjármagn og leiðir til að byggja upp og styrkja bæði þessi kerfi, enda snýst þetta um þjóðaröryggi. Við eigum ekki að þykjast vera sérfræðingar í rafmagnsfræði, til þess erum við með sérfræðinga og þeir hafa greint nákvæmlega hvað það er sem þarf að gera.

En eru leikreglurnar sem við löggjafinn og framkvæmdarvaldið setjum sanngjarnar? Erum við t.d. með of stífar reglur hvað varðar kostnaðarmat á jarðstrengjum? Við vitum að það er ekki tæknilega séð hægt að setja allar línur í jörðu. Þar af leiðandi þarf að velja þær línur vel. Ættum við ekki að setja okkur þá stefnu að setja allar línur á lægri spennu í jörðu, eins og t.d. Dalvíkurlínu? Sauðárkrókslína er jú loks að komast í framkvæmd.

Við ræðum í dag mál sem snertir óvenju marga og skiptir máli að við lærum af. Ég ætla því ekki að standa hér og benda á sökudólga. Þetta mál er stærra en svo. Þetta er mál sem á ekki að vera pólitískt bitbein stjórnmálamanna heldur þurfum við öll að standa saman og breyta kerfinu. Innviðir, hvort sem átt er við raforku, menntakerfi, samgöngur eða heilbrigðisþjónustu, eiga að vera með þeim hætti að sem minnstu máli skipti hvar fólk kýs að búa. Þótt gnægt sé af loforðum er íbúum á landsbyggðinni hins vegar haldið í stöðugri óvissu með hver staðan verður til framtíðar.

Herra forseti. Það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda að jafna búsetuskilyrði og stuðla að velferð og öryggi fólks um allt land. Við sem sitjum á Alþingi verðum að halda þessu á lofti. Viljayfirlýsingar, skýrslur og átakshópur er ekki nóg. Nú þurfum við aðgerðir til að tryggja að hægt sé að búa hvar sem er á landinu og stunda þar atvinnustarfsemi með tryggu aðgengi að rafmagni, samgöngum og fjarskiptum. Nú skulum við framkvæma.