Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Lengi hefur verið vitað um alvarlegt ástand og veikleika í dreifikerfi raforku sem er ein af lífæðum samfélagsins. Ásamt fjarskiptum og samgöngum er þetta grunnur að þjóðaröryggi. Það er ljóst að regluverk er allt of flókið. Það hefur tafið fyrir framkvæmdum og mjög mikilvægt er að hér verði unnið að úrbótum. Nú stendur yfir vinna við breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þar höfum við tækifæri til að sameinast um það að veita þeim grunninnviðum sem snúa að þjóðaröryggi ákveðinn forgang, taka það út úr þessu ferli sem er svo óskilvirkt og gefa því algjöran forgang í uppbyggingunni.

Það verður mikill kostnaður við uppbyggingu dreifikerfis raforku úti um landið. Við erum að tala um tugi milljarða. Samhliða er mjög mikilvægt að við horfum til þess að efla starfsemi orkusækinnar atvinnu og verðmætasköpunar úti um allt land. Þannig dreifum við best kostnaðinum af þessum framkvæmdum. Þannig náum við að halda áfram því forskoti sem Ísland hefur haft með því að bjóða þegnum sínum ódýra raforku. Við verðum að byggja þetta upp samhliða.

Virðulegur forseti. Afleiðingar þeirra atburða sem við upplifðum í síðustu viku eru miklar en það er ekki óþekkt og þrátt fyrir að við munum stíga stór og mikil skref núna til að reyna að tryggja innviði sem best á næstu árum munum við áfram búa við þessa vá. Óvissan var auðvitað verst. Hún var verst fyrir það fólk sem var heima, búið að missa rafmagn, fjarskipti, útvarp, hitaveitu í mörgum tilfellum og það var svo brjálað veður að það fór ekkert frá. Það er ekki hægt að lýsa með orðum þeim viðbrögðum sem maður hefur heyrt frá fólki sem lenti í þessum aðstæðum. Það er óásættanlegt. Í þessum viðbrögðum sanna björgunarsveitir landsins enn og aftur mikilvægi sitt. Þetta hryggjarstykki í almannavarnakerfi landsins höfum við áður upplifað. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því eins og forystumenn ASÍ láta skína í núna að björgunarsveitarfólk gangi í störf annarra. Björgunarsveitirnar okkar taka við þegar annað kerfi, sem er bara ágætlega öflugt, ræður ekki við vandann. Þannig hefur það verið og þannig höfum við byggt upp þetta einstaka kerfi sjálfboðaliðasveita sem við höfum sameinast um að standa við bakið á. Þær taka við þegar daglegt viðbragð ræður ekki við aðstæður. Grunnur að þessu sjálfboðaliðastarfi er auðvitað fólkið sem myndar einingarnar, þúsundir einstaklinga úti um allt land sem eru tilbúnar að leggja á sig ómælt erfiði við þjálfun, fjáraflanir og viðbragð og vera til taks hvenær sem er sólarhringsins. Þetta fólk hefur unnið kraftaverk í samfélaginu og hefur áunnið sér traust og virðingu samborgara sinna. Fyrir hverja eina klukkustund í útkalli hjá þessu fólki liggja 12 klukkustundir að baki í þjálfun, við fjáraflanir, við viðhald búnaðar og slíkt.

Við verðum að standa vörð um sjálfstæði þessara sveita. Það er mjög mikilvægt að þær verði ekki á einhverri ríkisforsjá. Þá er viðbúið að þessi sjálfboðaliðaandi gefi eftir. Við þurfum að standa vörð um þessa fjáraflanir. Uppi hafa verið deilur og gagnrýni á flugeldasölu björgunarsveitanna vegna tímabundinnar svifryksmengunar sem á sér stað um áramót. Við þurfum að vinna að mótvægisaðgerðum á þeim vettvangi eins og mögulegt er en við megum ekki fara út í neinar öfgar í þessum efnum. Sveitirnar verða að hafa tryggt þetta sjálfstæði frá hinu opinbera að þessu leyti. Öðruvísi mun þessi mikilvæga starfsemi missa afl sitt til lengri tíma litið.