Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:29]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á sömu orðum og ég lét falla hér fyrir tæpri viku: Samstaðan áorkar miklu á meðan hamfarir ganga yfir en við þurfum líka öll að vinna saman úr afleiðingunum.

Það gekk yfir hamfaraveður, línuveður með mikilli seltu, ísingu og bleytuhríð. Svona veður hafa komið og eiga eftir að koma. Veðrið gekk yfir mestan hluta landsins en línuveðrið um allt norðanvert landið. Það var ekki eins í neinum tveimur byggðum og það er ekki hægt að segja að viðbrögðin og afleiðingarnar hafi verið á landsbyggðinni, það var mismunandi eftir landshlutum.

Ég er þakklát fyrir allt það fyrirbyggjandi starf sem var unnið og kom í veg fyrir tjón; veðurspár, skýrar viðvaranir og viðbrögð fólks á vettvangi. Ég ætla ekki að stoppa lengi við raforkukerfið en nefna að þeir hlutar landsins sem nú búa við ótryggustu raforkuna mega ekki lenda fyrir aftan röðina í uppbyggingunni sem nú er fram undan þótt þeir hafi verið best búnir varaafli við þessar aðstæður, eins og Vestfirðir, Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafjörður, svo dæmi séu tekin.

Almannavarnir eru ábyrgð allra og á vef Almannavarna hefur lengi blasað við spurningin: „Hver er þinn viðbúnaður?“ Umsjón almannavarna er hjá ríki og sveitarfélögunum en þegar á reynir felast bjargir hvers byggðarlags og sveitarfélags í fólkinu sem þar býr, færninni sem það býr yfir og björgunum sem það hefur aðgang að, svo sem bakvakt og olíubirgðum. Hættumat, viðbragðsáætlanir, skipulögð og þjálfuð aðgerða- og vettvangsstjórn er mikilvæg öllum byggðarlögum. Reynsla Þingeyinga frá haustveðrinu 2012 og Holuhraunsgosinu kom t.d. til góða í þessu verkefni. Þekking og undirbúningur eru lykilorð. Þeim fækkar sem þekkja daglegt líf án stöðugs aðgangs að rafmagni, hita og fjarskiptum. Því er orðin full ástæða til að semja fræðsluefni með góðum ráðum og leiðbeiningum fyrir slíkar aðstæður þó að við vonum að þær komi afar sjaldan upp.

Heildarendurskoðun á fjarskiptalögum stendur yfir. Nýtum tækifærið og skilgreinum almennar öryggiskröfur til fjarskipta- og dreifikerfis Ríkisútvarpsins og hvenær almannavarnaástand getur krafist fulls aðgangs að símasendum óháð viðskiptasambandi.

Engin lausn felst í að leita sökudólga. Við þurfum öll að líta í eigin barm. Greinum verkefnið, forgangsröðum og göngum í verkið.