Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:32]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það áhlaup sem gekk yfir landið var mörgum erfitt. Maður hrökk nokkra áratugi til baka. Við vöknum upp við vondan draum og erum ekki viðbúin þessum atburðum. Líf okkar og tilvera er tengdari raforku heldur en áður var. En það má þakka ýmsu að ekki fór verr, góðum og öflugum veðurspám og líka því að fólk virti þær viðvaranir sem sendar voru út. Það er kannski besta vörnin. Viðbragðsaðilar voru undirbúnir og björgunarsveitir sendu liðsauka út á svæðin þar sem mátti búast við verstu aðstæðum. Það ber að þakka.

Ástandið sem skapaðist á Norðurlandi vestra var grafalvarlegt og við verðum að fara vel yfir allt ferlið og koma í veg fyrir að þær aðstæður skapist aftur. Ótrúlegt er að varaafl hafi ekki verið víðar. Heilbrigðisstofnun og hjúkrunarheimili voru án rafmagns í 30 tíma. Fjarskipti duttu út og fólk var sambandslaust og gat ekki látið vita af sér auk þess að það vantaði upp á að dreifiveitur væru með staðkunnuga starfsmenn á svæðinu. Hjá Orkubúi Vestfjarða hefur staðbundin þekking á svona aðstæðum viðhaldist í gegnum árin af því að raforkuöryggi er svo ótryggt á svæðinu og sú staðbundna þekking er svo mikilvæg. Það kemur fátt í hennar stað. Við getum lagt strengi í jörðu en látum ekki þekkinguna hverfa í jörðu með þeim sem bjuggu yfir henni. Það þarf að styrkja og viðurkenna að við þurfum öfluga, staðbundna starfsemi dreifiveitna og fjarskiptafyrirtækja um allt land sem þekkja aðstæður í nærumhverfi. Í svona aðstæðum finnum við hve mikilvægt er að það sé hægt að nálgast líka lækni í hverju byggðarlagi.

Það er best að farið verði af yfirvegun yfir málið í heild, hvað klikkaði og hvað má betur fara, til að tryggja að slíkt ástand skapist ekki. Það er ljóst að tryggja þarf flutningskerfi raforku, verja tengivirki betur sem hægt er að gera með því að byggja utan um þau. Eins þarf að styrkja dreifikerfi og þar koma smávirkjanir sterkt inn, enda er það ein leið til að styrkja dreifikerfi landsins.

Ég bendi líka á ræðu hæstv. iðnaðarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, í því sambandi og tek undir hennar orð. — Góðar stundir.