Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:37]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrst og fremst öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að takast á við þetta mikla aftakaveður sem reið yfir landið, hvort sem við erum að tala um björgunarsveitirnar, sveitarfélögin, atvinnurekendur, lögregluna, Veðurstofuna, alla þessa viðbragðsaðila, stórkostlegu sjálfboðaliðana en ekki síst fjölskyldurnar sjálfar sem upplifðu margar hverjar í fyrsta sinn verulega erfiðar aðstæður víða um landið. Það er í nákvæmlega þannig aðstæðum, stundum sárum og líka sorglegum, sem birtist að mínu mati það góða í okkar íslenska samfélagi, samhugur eins og mörgum hefur verið tíðrætt um, samkennd og elja.

En ég vil spyrja: Kom veðrið á óvart? Nei, það kom ekki á óvart. Það var búið að margvara við því. Kom framkoma og hjálp hinna úrræðagóðu viðbragðsaðila á óvart? Nei, að sjálfsögðu ekki. Þeir voru viðbúnir. Komu veikleikar raforkukerfisins á óvart? Nei, veikleikarnir komu ekki á óvart því að sveitarstjórnarfólk, atvinnurekendur, heimafólk var margbúið að benda á skort á raforkuöryggi, að það væri enginn ófyrirsjáanleiki, ekkert öryggi.

Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra sérstaklega fyrir ræðuna og fyrir að hafa talað um samstöðu. Við erum ein heild, ein þjóð í einu landi og ég vil einkum þakka fyrir þau orð hennar því að ég verð að segja eins og er að mér hefur ekki fundist mikil reisn yfir því að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar hafi beinlínis, sumir hverjir, keppst við að etja fólki, hópum og jafnvel landshlutum saman. Þeir hafa farið í það að nota þessar erfiðu aðstæður til að reka t.d. fleyg á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, sem er auðvitað ævintýralega lélegt, í stað þess að nálgast þetta mikilvæga verkefni sem samfélagsverkefni eins og hæstv. forsætisráðherra gerði í ræðu sinni, skipa þjóðinni strax saman í eitt lið um verkefni sem krefst svara, sem krefst aðgerða fyrir fólkið á svæðinu sem vel að merkja bjó og býr enn á sömu stöðum, eins og á Dalvík, við takmarkað aðgengi að rafmagni og við höktandi atvinnulíf. Mér skilst að það hafi svo sannarlega sýnt sig hver rétt meining orðsins ljósavélar er.

Höfum í huga að nákvæmlega þeir ráðherrar sem öttu fólki og hópum saman eru ráðherrar og fulltrúar sömu flokka og sömu hagsmunaafla og hafa nokkurn veginn farið með stjórn orku- og byggðamála frá lýðveldisstofnun. Það þýðir því að mínu mati ekki fyrir þá hæstv. ráðherra að stinga hausnum í sandinn og koma hér fram og vera alveg svakalega hissa yfir ástandinu. Ég tel að við þurfum að nálgast þetta upp á nýtt. Reynsla mín af þessu kjörtímabili er að gömlu flokkarnir eru ekki endilega mjög reiðubúnir til þess. Við í Viðreisn höfum óskað eftir því í kjördæmavikunni að fá að sitja fundi kjördæma þingmanna í kjördæmunum þar sem við erum ekki með þingmenn, í landsbyggðarkjördæmunum. Ekki enn segi ég, en við verðum með fleiri eftir næstu kosningar. En hvert hefur svarið verið hjá 1. þingmönnum og oddvitum þessara kjördæma, reyndar allir frá Sjálfstæðisflokknum? Þeir vilja ekki hleypa neinum að. Þannig á ekki að nálgast þetta því að verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er verkefni samfélagsins alls. Það er rétt sem hefur komið fram, að við getum staðið frammi fyrir náttúruhamförum hér á suðurhorninu, suðvesturhorninu, alveg eins og fyrir vestan, norðan, austan eða sunnan. Þess vegna verðum við að nálgast þetta sem ein þjóð. Eins og ég segi viljum við öll verða að liði.

Hvað hefur síðan gerst þegar við höfum farið á þau svæði? Við höfum ekki fengið að sitja þessa fundi en höfum þá óskað eftir fundum meðal sveitarstjórna svæðanna. Það hefur staðið upp úr öllum að númer eitt — síðan koma heilbrigðismálin — sé að efla raforkuöryggi og -dreifingu, að ástandið sé ekki ásættanlegt. Þetta á því ekki að koma á óvart og allra síst, eins og ég sagði, þeim stjórnarflokkum sem hafa farið með þau mál nokkurn veginn frá því að landið varð sjálfstætt. Við vitum alveg að það þarf að laga raforkuöryggi á Vestfjörðum, á Norðvesturlandi, Norðausturlandi. Þar er því verulega ábótavant og þess vegna segja lög til um það. Látum ekki taka okkur í bólinu aftur. Það er t.d. vitað að raflínur í Svarfaðardal og hjá Dalvík eru að mestu frá árinu 1982. Yfir 30 stæður þar lögðust niður í þessum hörmulegu aðstæðum. Nútímaraforkukerfi þarfnast búnaðar frá 21. öld, ekki þeirri síðustu. Við vitum líka hvernig það er með tengivirkin, það á ekki að koma á óvart. Það er allra veðra von hér. Af hverju var ekki búið að byggja yfir tengivirkin? Þetta þarf að fara í og skoða sérstaklega.

Það má alveg spyrja hér, eins og einn þingmaður Framsóknarflokksins gerði áðan: Hafa til að mynda skipulagsbreytingar hjá Rarik, þar sem staðbundin starfsemi hefur minnkað og eftirlit á landsbyggðinni hefur minnkað, haft áhrif á gang mála? Fjarskiptamálin sem ættu auðvitað að vera byggð upp fyrir framtíðina og Ísland allt hrukku alveg ótrúlega mikið í fortíðargír.

Hver eru skilaboðin hjá okkur í Viðreisn? Að við förum í aðgerðir. Það þarf vissulega að kortleggja og ég vil fagna sérstaklega átakshópi ríkisstjórnarinnar og hvetja forsætisráðherra til dáða með að þetta verði átakshópur en ekki átakahópur. Virkjum alla stjórnmálaflokka, ekki hugsa þetta sem stjórn og stjórnarandstöðu. Virkjum alla því að eins og ég sagði áðan viljum við öll verða að liði. Við þurfum að tryggja að allir þeir sem koma að þessu, hvort sem það er Landsbjörg sem þarf náttúrlega hafa sitt svigrúm og ég vil taka undir orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem sagði að varðveita þyrfti sjálfstæði Landsbjargar, veita þeim svigrúm til þess að standa á eigin fótum, veita þeim þann stuðning sem þau þurfa á að halda — við þurfum að gæta að því að öll röðin, öll keðjan geti virkað, fúnkerað þegar á þarf að halda. Nú er það ekki svo og þess vegna vil ég hvetja hæstv. forsætisráðherra, sem hefur haldið ágætlega á þessu máli, til dáða. Ég hvet hana til þess að vera í forystu og leyfa okkur öllum að koma að og styðja við það sem þarf að gera, ekki bara í orðum heldur aðgerðum.