Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Frú forseti. Ég er ekki þeirrar gerðar þegar eitthvað ber út af og við teljum að eitthvað hafi brugðist að ég nenni að dvelja lengi við það að finna sökudólginn í því nákvæmlega hverju sé um að kenna — eða hverjum, ekki nema til þess að við getum nýtt það sem best til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig, til að vinna saman að því að betrumbæta ástandið. Það er akkúrat það sem ég hef verið ánægðastur með í viðbrögðum stjórnvalda við því veðri sem hér gekk yfir, hvernig það hefur verið nýtt akkúrat til þess. Við þurfum saman að ganga í að laga það sem þarf að laga. Við erum ekki alveg á núllpunkti með það því að við höfum unnið að ýmsu er varðar uppbyggingu flutningskerfisins. Við erum að setja okkur orkustefnu, við erum meira að segja að vinna að regluverki er kemur að umhverfismati og fleiru slíku. Þar er gríðarlega mikilvægt að kerfið sé skilvirkt en um leið að það standi vörð um þau sjónarmið sem lúta að náttúru og vernd hennar og rétti almennings alls til að hafa skoðanir á því og aðgang að upplýsingum þar um.

Forseti. 13. ræðan í svona umræðu þar sem við erum í rauninni öll sammála um að við þurfum að taka höndum saman um að vinna að þessu bætir kannski ekki miklu við umræðuna. Mig langar þó að segja á persónulegum nótum að ég var staddur á loftslagsráðstefnu í Madríd þegar þetta gekk yfir og fylgist vel með fréttum héðan. Það sem stendur upp úr hjá mér er það stolt sem ég fann fyrir og gat rætt um við félaga mína á loftslagsráðstefnunni, stolt yfir því hvernig viðbragðsaðilar, almannavarnir, björgunarsveitir og íbúar þessa lands, allir sem einn, tóku höndum saman til að gera það sem hægt var að gera við þessar gríðarlega erfiðu aðstæður. Fyrir það verð ég ævarandi þakklátur.