Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:51]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrst og fremst vil ég þakka hv. þingmönnum þá samstöðu sem ég skynja í þessum sal, samstöðu um að mikilvægt sé að bæta úr þeim ágöllum sem við höfum orðið vör við í innviðum okkar. Ég heyrði það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði, að það sé mikilvægt að þingið sé upplýst um vinnu átakshópsins, og ég hef þegar haft samband við formann átakshópsins og beðið hann um að það verði tryggt, þegar sú vinna er komin á veg, að fulltrúar þingsins fái tækifæri til að fara yfir þau mál.

Hér hefur verið rætt um hvort við höfum aukið nægjanlega framlög til innviðauppbyggingar. Ja, við höfum aukið framlög verulega í hina áþreifanlegu innviði, svo um munar, um 45% síðan þessi ríkisstjórn tók við. Þá er ég ekki að tala um aukningu til hinna óáþreifanlegu innviða, eins og heilbrigðiskerfis og menntakerfis, þar sem við höfum aukið rammasett útgjöld um hartnær 115 milljarða frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Auðvitað erum við að byggja upp þessa innviði, auðvitað er það ekki svo að ekkert hafi verið gert og þegar við lítum til fortíðar megum við ekki gleyma því að þegar svona veður gengu yfir var það ekkert smá.

Við megum ekki gleyma sögunni. Í mannskaðaveðrinu 1968 fórust 26 manns. Eigum við að rifja upp snjóflóðin, sem við munum öll eftir hér í þessum sal, 1995 þar sem fórust annars vegar 20 og hins vegar 14? Svo var mannskaðaveður 1980. Þetta veður núna hefur vissulega þegar haft í för með sér óbætanlegt tjón þar sem ungur maður lést en það breytir því ekki að hið veraldlega tjón er hægt að bæta.

Ég vil nota mínar síðustu sekúndur til að þakka aftur öllum þeim viðbragðsaðilum sem hafa staðið vaktina, Landsbjörg og björgunarsveitum, lögreglunni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, starfsfólki sveitarfélaga sem ég nefndi ekki áðan, sjúkraflutningamönnum og slökkviliðsmönnum, Landhelgisgæslunni sem svo sannarlega brást gríðarlega hratt við, (Forseti hringir.) Vegagerðinni eins og ég fór yfir í fyrri ræðu, Veðurstofunni, ferðaþjónustunni sem ég nefndi og samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð, Rauða krossinum og svo fjölmiðlum (Forseti hringir.) sem auðvitað reyndu að upplýsa þótt við höfum orðið vör við veikleika í dreifikerfinu sem við þurfum að bæta.

Að öðru leyti þakka ég fyrir þann góða hug sem ég finn hér í salnum og einarða vilja til úrbóta.