150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Við erum á endasprettinum í umræðu um fæðingarorlofið og eins og hv. þingmönnum er kunnugt um urðu í morgun töluverðar umræður um með hvaða hætti væri best að haga skiptingu fæðingarorlofsins og búa um það þannig að ásættanleg lending næðist, þ.e. að við hyrfum ekki frá þeim kostum sem núverandi kerfi hefur sem tryggir barni samvistir við báða foreldra ef þau eru til staðar og það deilir að einhverju leyti hluta réttarins á milli foreldranna og leggur það í þeirra hendur. Þannig er það frumvarp og sú breytingartillaga sem fyrir liggur, þ.e. að halda sig við skiptinguna fyrir árið 2020, fjórir mánuðir fyrir hvort foreldri og tveir mánuðir í sameiginlegan rétt. Það er þetta svokallaða fjórir, fjórir, tveir fyrirkomulag, sem vel að merkja er ekki vísun í einhverja íþróttafræði, en á árinu 2021 er því komið fyrir í bráðabirgðaákvæði, sem hv. þingmenn geta kynnt sér og hefur verið lagt fram nýtt, að rétturinn til 12 mánaða fæðingarorlofs er ótvíræður en það er lagt í hendur félags- og barnamálaráðherra að leggja fram frumvarp um endanlega skiptingu fyrir árið 2021, þó með því fororði að grunnurinn í þeirri skiptingu verði réttur beggja foreldra, þetta svokallaða fjórir, fjórir, tveir fyrirkomulag, og að frumvarp ráðherra hvað skiptinguna varðar snúist eingöngu um þá tvo mánuði sem verið er að bæta við.

Hæstv. ráðherra talaði býsna skýrt í morgun um að hann hygðist leggja fram slíkt frumvarp og að hann myndi byggja niðurstöðu þess á vinnu þeirrar endurskoðunarnefndar sem nú er að störfum. Ég tel að eins og málið er nú fram komið sé eins vel um það búið og við komumst með til þrautavara af því að hv. þingmenn komu margir hverjir inn á það hvað gerðist ef ráðherra gerði ekkert — eða ef þingið gerði ekkert, hvað þá? Þá er til þrautavara, og ég ítreka að það er ekki ætlun flutningsmanna að sú verði lendingin heldur er þetta baktrygging eða varnagli fyrir þessi mikilvægu réttindi, settur inn eftirfarandi nýr málsliður í bráðabirgðaákvæði. Ég hvet hv. þingmenn til að fylgjast vel með, herra forseti:

„Verði frumvarp samkvæmt 1. mgr. ekki samþykkt skal samanlagður réttur til fæðingarorlofs eigi að síður verða 12 mánuðir vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. janúar 2021. Hið sama skal gilda um fæðingarstyrk. Skal ráðherra þá mæla fyrir um skiptingu þeirra tveggja mánaða sem við bætast með reglugerð. Skal sú reglugerð gilda þar til lög, sem samþykkt hafa verið á Alþingi, hafa tekið gildi þar sem kveðið verður á um skiptingu á 12 mánaða rétti foreldra til fæðingarorlofs.“

Herra forseti. Ég held að þetta geti varla verið öllu skýrara í vel að merkja flóknu máli því að málið er ekki sérlega einfalt. Ég er algjörlega til í að taka það á mig að ég hafi tekið þátt í að flækja málið pínulítið fyrir þingmönnum en þannig er það stundum þegar ná þarf lendingu að maður lendir í einhverjum snúningum sem á endanum leiða mann að réttri niðurstöðu og ég tel að við séum með hana hér.