150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að reyna að skýra út fyrir okkur í þingheimi þetta einfalda mál sem er orðið alveg stórkostlega flókið. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að við séum komin með fjórðu breytingartillögu meiri hlutans í þessu máli sem snýst um að fara að lífskjarasamningum sem gerðir voru og lengja fæðingarorlofið upp í 12 mánuði, þ.e. tíu mánuði á næsta ári og 12 mánuði síðar. Þetta mál sem er sáraeinfalt er allt í einu orðið að nánast ókleifu fjalli.

Ég er komin hingað til að spyrja hv. þingmann hvort hefði verið ráð strax á föstudag þegar meiri hlutinn byrjaði að hringla með eigin breytingartillögur að kalla málið inn í nefnd og fá faglega umfjöllun í stað þess að banna slíka umfjöllun í nefndinni eins og meiri hlutinn gerði, að fá fagaðila til að leiðbeina nefndinni um hvernig ætti að greiða úr þeirri flækju sem ríkisstjórnin var þá búin að koma málinu í.

Í öðru lagi vil ég spyrja út í 3. mgr. breytingartillögu meiri hlutans núna sem lýtur að því að ef ráðherra gefur ekki út frumvarp er búið að gefa ráðherra reglugerðarheimild. Er þingmaðurinn ekki meðvitaður um að Alþingi er löggjafarvaldið og að þingmenn sem og þingnefndir geta lagt fram frumvörp til samþykktar eða synjunar eftir því hvernig vindar blása en þurfa ekki að bíða eftir leyfi frá ráðherra til að leggja fram frumvarp?