150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur að framlagning málsins og lúkning þess um þessi áramót er hluti af lífskjarasamningunum. Þó er rétt að minna á, eins og þingheimi er kunnugt um, að lenging fæðingarorlofsins er einnig hluti af stjórnarsáttmálanum og ef mér skjátlast ekki hrapallega stefnu flestra stjórnmálaflokka á Íslandi, ef ekki allra. Það er verið að ganga frá því hér.

Varðandi það hvort það hefði átt að ræða málið frekar í nefnd hefur okkur verið ætlaður tiltölulega knappur tími til að ræða þetta mál í þinginu, eins og ég kom inn á í framsögu minni á sínum tíma, og lendingarnar sem við náum núna eru þær sem kynntar hafa verið. Ég efast stórlega um að nefndin hefði með utanaðkomandi aðstoð náð annarri lendingu en þessari.

Hvað varðar reglugerðarheimildina sem hv. þingmaður spurði út í tel ég einmitt að með þessum umbúnaði séum við að setja ráðherra mjög skýrt fyrir með hvaða hætti hæstv. ráðherra á að smíða þau ákvæði sem út af standa og aukinheldur að með reglugerðarheimild eins og þessari séum við í rauninni að mæla fyrir um að það eigi að leggja fram reglugerð með ívilnandi hætti, þ.e. reglugerðin á að segja til um aukin réttindi en ekki minnkuð. Það tel ég kannski lykilatriðið í þessu. Við erum að segja ráðherra fyrir verkum með þessari reglugerðarheimild og þessu ákvæði.