150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta er flókið verkefni eins og hv. þingmaður kom inn á. Það er algjörlega rétt. Eins og hv. þingmanni er líka kunnugt um komu fram mjög mismunandi sjónarmið í umfjöllun nefndarinnar, ekki hvað síst í þeim umsögnum sem bárust. Þar voru uppi ýmis sjónarmið eins og ég kom inn á í ræðu minni í morgun.

Það er hluti af vandanum sem við eigum í og síðan er í gangi heildarendurskoðun á fæðingarorlofslögunum. Það liggur fyrir að næsta haust kemur frumvarp um löggjöfina um fæðingarorlof sem hæstv. ráðherra kom inn á í morgun að hann myndi leggja fram, í andsvari að mig minnir. Ég sé ekki ástæðu til að efast um það.

Þingmaðurinn spurði hvað myndi gerast ef skipt yrði um ráðherra. Einmitt þess vegna er mikilvægt að hafa reglugerðarákvæðið afdráttarlaust hérna inni þannig að fari svo ólánlega að skipt verði um ráðherra hefur hann engu að síður fyrirmæli frá þinginu. Það er alvanalegt að þingið gefi ráðherrum fyrirmæli.