150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það sé til bóta að horfið sé frá fyrri breytingartillögu. Ég hef reyndar ekki tölu á því hvar í röðinni sú breytingartillaga var frá meiri hluta velferðarnefndar. Hér er þá komin önnur breytingartillaga en ég skil enn sem fyrr ekki þennan vandræðagang. Þingið samþykkti í gær með mjög skýrum hætti hvernig það vildi skipta 12 mánaða fæðingarorlofi. Það stóð mjög skýrt. Það var ekkert til dæmis um það, að það ætti mögulega að vera á þennan hátt, það var mjög skýrt í þingsályktunartillögunni sem við samþykktum í gær að skiptingin skyldi vera fimm mánuðir á hvort foreldri um sig og tveir mánuðir til skiptanna. Það gat ekki verið miklu skýrara en svo er meiri hluti velferðarnefndar einhvern veginn að hræra með þetta mál fram og til baka hérna í dag. Ég skil ekki þann vandræðagang. Ég get ekki túlkað það öðruvísi en að þegar til kastanna hafi komið hafi ekki verið stuðningur við það í ríkisstjórninni eða hjá einhverjum aðildarflokka þessarar ríkisstjórnar að fara þá leið sem þingið og þá þeir hinir sömu samþykktu þó í gær.

Þetta er eitthvert met í hringlandahætti, herra forseti og hv. þingmaður. Það er skárra að búið sé að eiga eitthvað aðeins við þetta en mér er eftir sem áður lífsins ómögulegt að skilja að við getum ekki einfaldlega staðið við og lögfest þann skýra vilja sem kom frá þinginu í gær.