150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[17:58]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál, annars vegar vegna þess að þau eru eiginlega orðin of mörg og hins vegar vegna þess að ég verð eiginlega ruglaðri þeim mun meira sem talað er um málið. Síðustu tvo daga hefur þingsalur fleytt hverju málinu á fætur öðru í gegnum atkvæðagreiðslu undir hörðum og réttmætum athugasemdum minni hlutans um að þau séu ekki nægilega vel unnin, ekki nægilega vel ígrunduð og ekki nægilega mikið tillit tekið til athugasemda en á það hefur ekki mátt hlusta vegna þess að þessi mál eru öll hluti af kjarasamningnum frá síðasta vori. Ég ætla ekki að leggjast svo lágt að nota sama orðfæri og hæstv. félagsmálaráðherra dundaði sér við fyrr í dag um stjórnarandstöðuna. Hvert málið á fætur öðru fer með þessum vinnubrögðum í gegn, risamál, umdeild mál, mál sem varðar Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem stærsta sveitarfélagið leggst ekki eingöngu gegn heldur fær ekki að mæta á fund til að fylgja eftir umsögn svo eitthvað sé nefnt.

En hvar strandar? Hvar brestur samstaða ríkisstjórnarflokkanna? Í fæðingarorlofsmálinu sem er eins og öll hin málin hluti af kjarasamningnum frá því í vor en var með fullum stuðningi stærsta hluta stjórnarandstöðunnar ólíkt hinum málunum sem hér voru keyrð í gegn. Ég ætla ekki að tala fyrir alla stjórnarandstöðuflokkana en þó held ég að þeir séu allir með fæðingarorlofinu. En þar setja stjórnarliðar fótinn niður. Nei, stopp, nú stoppum við, nú keyrum við ekki fleiri mál í gegn. Þetta er orðið gott. Í fæðingarorlofsmálinu brestur samstaðan.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom örlítið inn á það áðan en ég kalla samt eftir meiri upplýsingum bara til að ég skilji málið. Framkvæmdaáætlun um jafnréttismál fór hér í gegn með öllum greiddum atkvæðum í gær þar sem skýrt er kveðið á um að markmiðið sé að þegar fæðingarorlofið verður eftir eitt ár, í upphafi 2021, orðið 12 mánuðir sem ég held að allir séu sammála um eigi skiptingin að vera fimm mánuðir á hvort foreldri og tveir til skiptanna. Hvað gerist hjá þingmönnum sem greiða atkvæði með þessu og eru núna ekki vissir um að þetta sé best? Af hverju komu þessar athugasemdir ekki fram í gær? Af hverju ræddum við þetta ekki hér í gær og fórum síðan lengra með málið?

Að því sögðu tek ég heils hugar undir með þeim sem fagna vegna þess að það er verið að tala um lengingu fæðingarorlofsins. Hins vegar er ekki sama hvernig góðir hlutir eru gerðir. Það er leitun að jafn vanhæfum málatilbúnaði og hér hefur átt sér stað um þetta mál. Það er miður, það er ömurlegt að standa í að afgreiða svona mál með jafn mikið óbragð í munni og við sitjum uppi með. Þetta er breytingartillaga við breytingartillögu við frumvarp sem ég held að sé meiri hluti fyrir á þingi en það er annað mál vegna þess að það mun ekki sjá dagsins ljós. Síðari breytingartillagan er skárri þeirri fyrri, það er alveg rétt, og mögulega lýkur þessu hér með því að fólk sitji á gula takkanum til að lýsa enn einu sinni yfir vonbrigðum og vanþóknun á þessum vinnubrögðum og styðji svo málið vegna þess að þetta er í grunninn gott mál. Þessi vinnubrögð eru hins vegar ömurð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)