150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við þá andstöðu sem hv. þingmaður eignar Sjálfstæðisflokknum í málinu. Ég veit ekki betur en að málið komi aftur til kasta þingsins og að þar verði tekin afstaða til skiptingarinnar. Það sem ég er að benda á varðandi tryggingagjaldið er að það lækkar á sama tíma og réttindi sem gjaldið á að tryggja aukast. Hv. þingmaður spyr: Er ekki bara verið að færa fæðingarorlofshlutann til fyrra horfs? Sú skoðun verður ekki tekin án þess að horfa til þess hvert heildargjaldið er. Heildargjaldið lækkar um 4 milljarða á næsta ári þrátt fyrir að við aukum hlutdeild fæðingarorlofshlutans sem þýðir að sá þáttur tryggingagjaldsins sem á að standa undir lífeyristryggingunum snarlækkar og það gerist á sama tíma og í beinu framhaldi af auknum réttindum í lífeyristryggingakerfinu. Þetta stóra samhengi hlutanna kemst allt of sjaldan á dagskrá á Alþingi. Það er óeðlilegt að stjórnvöld séu í samtali við vinnumarkaðinn um breytingar á atvinnuleysisbótum og fæðingarorlofsréttindum án þess að í sömu andrá sé rætt um fjármögnun þeirra réttinda vegna þess að sá sameiginlegi skilningur er þó hér til staðar að þessir hlutar réttindanna séu að fullu fjármagnaðir. Til að fullfjármagna þá þarf fæðingarorlofshlutinn að fara upp í 1,1% sem er 17% af tryggingagjaldinu.