150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki að boða hækkanir á tryggingagjaldinu, við erum að lækka tryggingagjaldið enn einu sinni. Hv. þingmaður segir að gjaldið sé sambærilegt og var fyrir hrun. Ég má þá bara færa það inn í umræðuna að réttindin eru öll önnur og betri, m.a. hvað varðar atvinnuleysisréttindi, fæðingarorlof og ellilífeyri. Reyndar eru ellilífeyrisþegar sá hópur, samkvæmt Tekjusögunni, sem hefur notið hvað mestrar kaupmáttaraukningar ráðstöfunartekna á undanförnum árum. Hið sama gildir um örorkuþega. Allir þessir bótaflokkar eru á allt öðrum stað en var fyrir hrun þannig að það er eðlilegt að tryggingagjaldið sé ekki á nákvæmlega sama stað.

Hv. þingmaður talaði hins vegar fyrir því á sínum tíma að vinnumarkaðurinn tæki yfir þessa réttindaflokka og þá skulum við spyrja okkur hvað hefði gerst ef það hefði gengið eftir. Þá hefðu menn verið að semja við sjálfa sig um að hækka fæðingarorlofið upp í 12 mánuði, inni á vinnumarkaðnum, og allur kostnaðurinn, 5 milljarðar í þessu tilviki, hefði endað hjá atvinnurekendum. En hvað er að gerast hjá þessari ríkisstjórn? Kostnaður atvinnurekenda lækkar um 4 milljarða um áramótin en hin hugmyndafræðin hefði hækkað kostnaðinn um 5 milljarða. (ÞorstV: Hann er … atvinnurekendanna.)