150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Stærsta framfaraskref í þágu kynjajafnréttis á Íslandi hefur verið uppbygging leikskóla fyrir okkur öll og uppbygging fæðingarorlofs sem bæði mæður og feður nýta. Þetta er ástæðan fyrir því að Ísland mælist enn á ný efst á lista Alþjóðaefnhagsráðsins yfir jafnrétti kynjanna. Ég á sjálf þrjú börn. Ég væri ekki í þeirri stöðu sem ég er í í dag ef ekki væri fyrir fæðingarorlof og leikskóla. Þess vegna er þetta mér mikill fagnaðardagur, að við séum að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í 12. Ég hefði gjarnan viljað hafa það þannig þegar ég eignaðist mín þrjú börn en ég samfagna þeim foreldrum sem eiga eftir að fá þessi auknu réttindi því að þetta skiptir máli fyrir konur, fyrir karla og fyrir börnin í þessu landi. Þetta er alveg gríðarlegt framfaraskref fyrir allt barnafólk á Íslandi og yfir því gleðst ég hér í dag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)