150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:15]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að það eigi að hafa 12 mánaða fæðingarorlof. Það er frábært. Mér finnst samt ömurlegt hvernig hefur verið farið með þetta mál. Mér finnst algjörlega glatað að þurfa að standa hérna og gagnrýna þetta í staðinn fyrir að vera að fagna. Það er ömurlegt. Ég verð að segja að við Píratar verðum gul á þessum breytingartillögum þótt ég geri mér grein fyrir því að það þýðir líka að við verðum gul á því að hækka upp í 12 mánuði. Þetta er því miður komið á þann stað. Ég styð það að við fáum 12 mánuði í fæðingarorlof en ég get ekki stutt þessa breytingartillögu, m.a. finnst mér að það eigi ekki að vera undir ráðherra komið hvernig fæðingarorlofi er skipt. Það virðist vera til staðar í breytingartillögu meiri hluta. Það þarf að byggjast á einhverjum málefnalegum sjónarmiðum sem fara svo í lýðræðislega umræðu í þingsal. Við eigum ekki að framselja réttindavernd í reglugerðarheimild til ráðherra. Það er það sem ég hef mestar áhyggjur af í breytingartillögu meiri hlutans og er (Forseti hringir.) ástæðan fyrir því að ég verð á gulu. Mér finnst þetta ólýðræðislegt og óheilbrigt og mér finnst þetta sýna hversu ósamstæð og ósamvinnuþýð þessi ríkisstjórn er, meira að segja innan sinna eigin raða, að hún er búin að klúðra þessu frábæra máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)