150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Já, það er mikið fagnaðarefni að verið sé að draga til baka styttingu fæðingarorlofsins sem ákveðið var af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á kjörtímabilinu 2009–2013, en þá samþykkti einmitt Alþingi 12 mánaða fæðingarorlof. Við megum ekki gleyma því. Nú er verið að draga til baka þá styttingu sem ríkisstjórnin sem tók við 2013 gerði þá. Við fögnum því að sjálfsögðu. Hins vegar er alveg ótrúlega sorglegt hvernig ríkisstjórnin fór með þetta, hvernig hæstv. félags- og barnamálaráðherra klúðraði málinu og hvernig meiri hlutinn er búinn að henda inn fjórum, fimm breytingartillögum. Ég held að það sé langbest að við förum í það að samþykkja bara frumvarpið eins og það er. Þar eru 12 mánuðir, þar er skiptingin fimm, fimm, tveir — og hættum þessu klúðri. Þessar breytingartillögur eru eingöngu til komnar vegna ágreinings innan ríkisstjórnarflokkanna. Ég er viss um að það er meiri hluti fyrir því í salnum (Forseti hringir.) að hafa fæðingarorlofið fimm, fimm, tveir eins og við samþykktum í gær. Þá var meiri hluti fyrir því þannig að ég held að við eigum bara að sitja hjá í breytingartillögunum og styðja frumvarpið af því að frumvarpið gengur út á 12 mánaða fæðingarorlof.