150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[18:18]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Líkt og aðrir fagna ég því að við séum að greiða atkvæði um lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í 12 mánuði. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir börn og barnafjölskyldur á Íslandi að þessi lenging komi til framkvæmda. En við skulum heldur ekki gleyma því að núverandi ríkisstjórn er líka búin að hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Það er gaman frá því að segja að að loknu þessu kjörtímabili munu heildargreiðslur sem renna til barnafjölskyldna á Íslandi í gegnum fæðingarorlofskerfið hafa aukist úr 10 milljörðum í 20 milljarða á ársgrunni. Það er fjármagn sem rennur beint til barnafjölskyldna á Íslandi. Ég er ótrúlega ánægður með að við séum að greiða atkvæði um þessar breytingar hér í dag og ég hlakka líka til þess að kynna í október nk. vinnu við heildarendurskoðun laganna sem m.a. mun þá taka afstöðu til þeirra atriða sem beint er inn í þá vinnu. Á næsta ári er fæðingarorlofskerfið okkar orðið 20 ára gamalt og það er þörf á að endurskoða það vegna þess að við viljum hafa öflugt og framsækið fæðingarorlofskerfi á Íslandi vegna þess að það skiptir mjög miklu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)