150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[16:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að þetta sé mál sem er erfitt að ræða á einni mínútu því traust á Alþingi er ekki það eina sem við er að eiga — eða vantraust á Alþingi. Við getum tekið sem dæmi ýmsar aðrar stofnanir lýðræðissamfélagsins, borgarstjórn Reykjavíkur og fleiri, þar sem við sjáum tölur um vantraust. Hvað getum við gert? Við getum ráðist í kerfisbreytingar. Hér á Alþingi er til að mynda statt mál um vernd uppljóstrara sem ég vona að verði afgreitt bráðlega og getur orðið mikilvæg kerfisbreyting til að efla traust. Ný upplýsingalög tóku gildi með breiðum stuðningi sem ég er mjög þakklát fyrir því að ég tel að aukið gagnsæi muni efla traust til lengri tíma. Og á næstu dögum verður hér dreift frumvarpi um varnir gegn hagsmunaárekstrum, frumvarp sem var í forstofuherberginu um tíma og er núna vonandi að komast í dreifingu á Alþingi, þar sem einmitt er kveðið á um ríkari hagsmunaskráningu og þar með aukið gagnsæi. En þetta er vissulega langtímaverkefni. Allar þessar tillögur eiga ýmist rætur að rekja til þess starfshóps sem þingmaðurinn nefndi eða nefndar um tjáningarfrelsi. (Forseti hringir.) Ég hef trú á því að hvert skref í þessum málum muni skila okkur áfram en ég veit líka að það er langhlaup.