150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[16:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég man rétt þá var hv. þingmaður einmitt í ríkisstjórn á árinu 2017, ríkisstjórn sem kaus að auka ekki við opinbera fjárfestingu þrátt fyrir gríðarlega uppsafnaða þörf og fyrirséða stöðu í hagkerfinu. Þess vegna var ráðist í að auka opinbera fjárfestingu eins og ég fór hér yfir, af því það var skynsamlegt hagstjórnarlega. Þess vegna var líka gripið til varúðarráðstafana hvað varðar þá sem missa vinnuna með því að hækka atvinnuleysisbætur eins og hv. þingmann rekur minni til. Ég fór yfir það í þessari pontu að það væri mjög mikilvægt að gera því að þetta væri eitt af því sem við gætum séð fram á.

Hv. þingmaður talar svo um að gjaldmiðillinn sé stóra vandamálið í hagstjórninni á sama tíma og við sjáum að einmitt með því að stýritæki peningastefnunnar, ríkisfjármálastefnan og vinnumarkaðsstefnan eru að vinna saman þá erum við með allt aðra þróun í hagstjórninni en við höfum séð áður. Þá er komið hér með svona gamla tuggu, myndi ég segja, um að allt sé þetta gjaldmiðlinum að kenna. Ég get bara ekki tekið undir það. Hins vegar hefur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Forseti hringir.) kynnt nýjar aðgerðir þegar kemur að því að efla nýsköpun á Íslandi. Ég tel, og þar held ég að við hv. þingmaður séum sammála, að enn og aftur stöndum við frammi fyrir því að þegar kemur að okkar efnahagslífi (Forseti hringir.) þá þurfum við meiri fjölbreytni, við þurfum meiri áherslu á þekkingariðnað og að því erum við að vinna.