150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[16:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ætla að endurtaka það sem ég fór yfir í ræðu minni, þegar við skoðum tekjusöguna 2018 yfir ráðstöfunartekjur ólíkra hópa kemur þar fram að ráðstöfunartekjur án fjármagnstekna hafa aldrei verið hærri en á árinu 2018 hjá ýmsum hópum og þar með talið eldri borgurum, hjá hjónum og sambúðarfólki, einstæðum foreldrum og einstæðum konum.

Við verðum að horfa á það hvernig þessir hópar standa og hvernig tekjur þeirra hafa þróast. Hvað hefur ríkisstjórnin gert? Jú, hún hækkaði frítekjumark vegna atvinnutekna strax og hún tók við. Hún hefur forgangsraðað eldri borgurum og öryrkjum þegar kemur að því að lækka greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu. Um það munar svo sannarlega, það er ein stærsta jöfnunaraðgerð sem við getum ráðist í.

Félags- og barnamálaráðherra lagði fram frumvarp sem var samþykkt á Alþingi sem dró úr skerðingum örorkulífeyrisþega sem munar verulega miklu fyrir þann hóp og af því að hv. þingmaður spyr hvort ekkert verði gert bendi ég á að á þingmálaskrá hæstv. félags- og barnamálaráðherra er sömuleiðis frumvarp um endurskoðun á almannatryggingakerfinu þegar kemur að örorkulífeyrisþegum.