150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[16:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra rýr svör. Þessi hópur getur ekki lifað. Það er útilokað að hann lifi á meðaltali. Það er bara ekki hægt. Þarna undir er stór hópur sem hefur ekki til hnífs og skeiðar, er undir 200.000 kr. á mánuði og lifir við sárafátækt. Hvernig í ósköpunum er hægt að segja við þennan hóp að að meðaltali hafi hann það svo gott? Við getum haft það rosalega gott að meðaltali með annan fótinn í ís og hinn í eldi. Að meðaltali væri það flott en það getur enginn lifað á meðaltalinu. Það hlýtur að vera varið í stjórnarskránni að allir séu jafnir fyrir lögum og þá spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum gildir það ekki um þennan hóp? Hvers vegna er hann ekki jafn fyrir lögum að fá lífskjarasamninginn eins og allir aðrir hafa fengið?

Hvað er það í fari hans sem veldur því að hann á ekki þennan rétt?