150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Þetta var áhugaverð spurning. Það vill svo vel til að ég er ekki bara starfandi stjórnmálamaður heldur líka áhugamaður um stjórnmál svoleiðis að ég skal reyna að leggja á þetta tiltölulega óháð mat sem óháður álitsgjafi. Í ljósi reynslunnar óttast ég að lið hv. þingmanns muni vinna í þessu tilviki eins og í fyrri tilvikum þar sem tekist hafa á raddir þeirra sem vilja fara varlega, vinna hlutina vel, leita að skynsamlegustu leiðinni, og svo þeirra sem ganga harðast fram, harðlínumannanna af vinstri kantinum í þessu tilviki, sem kunna auk þess kannski betur en þeir sem gætu viljað taka undir með mér í ríkisstjórninni að spila á kerfið, fá það til að vinna með sér að markmiðunum.

Við sjáum þetta t.d. með borgarlínuna sem ég nefndi, ég held að flestir geri sér grein fyrir því að hún sé tóm vitleysa og muni kosta miklu meira en ráð er fyrir gert (Forseti hringir.) en af því að þetta er farið af stað í kerfinu hjá bandamönnum þessara sömu hópa mallar þetta áfram. Ég tala nú ekki um mistökin með Landspítalann.