150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Vandinn í því sem hv. þingmaður spyr út í birtist í svo mörgu hjá þessari ríkisstjórn. Yfirlýsingarnar fara ekki saman, oft og tíðum ekki einu sinni nöfnin sem hlutum eru gefin, og svo afleiðingarnar og framkvæmdin. Það er það sem við höfum horft upp á í samgöngumálum, ekki hvað síst flugmálunum þar sem, eins og ég nefndi hér áðan, menn hafa ekki einu sinni viljað nýta flugþróunarsjóðinn til að byggja upp á Akureyri. Af því að við erum að tala um hluti þar sem ekki fer saman hljóð og mynd eins og menn segja stundum er stöðugt verið að tala um samráð í öllum þessum áformum ríkisstjórnarinnar. Það á að hafa átt sér stað alveg stórkostlegt samráð um miðhálendisþjóðgarðinn og mikið samráð, segir hv. þingmaður, um samgöngumálin. En hver er raunin? Hver er afstaða t.d. bæjaryfirvalda á Akureyri eða Akureyringa til áforma ríkisstjórnarinnar varðandi Akureyrarflugvöll? Mér finnst sú afstaða ekki bera vott um að samráðið hafi verið sérstaklega gott.