150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég vissi af þessu máli áður en hæstv. umhverfisráðherra fór að kynna það á fundum og ég held að flestir þingmenn hafi fylgst með framgangi þess. Við vorum með fulltrúa í undirbúningsnefnd. Þegar sá fulltrúi taldi fullreynt að hægt væri að koma þessu í eitthvert skynsamlegt horf sagði hann sig frá þeirri vinnu og tók ekki þátt í að skila þeirri niðurstöðu sem hæstv. umhverfisráðherra talar nú fyrir á fundum. Umræðan, hvort sem það eru orð hæstv. ráðherra á fundunum eða helstu bakhjarla ráðherrans og tillögunnar — hv. þingmaður nefndi Landvernd, ég held að það sé ekkert úr lausu lofti gripið að kalla Landvernd meðal helstu bakhjarla þessarar tillögu — en þegar maður hlustar á hvaða tilgang þeir sjá í framkvæmdinni fer maður að hafa áhyggjur af því að þetta sé til þess ætlað, eins og ég lýsti áðan, að draga úr valdi kjósendanna yfir umhverfi sínu (Forseti hringir.) og færa það til afmarkaðri hóps.

Ég veit að ég er ekki búinn að svara öllum spurningum en ég reyni að klára það á eftir.